16.01—27.02.2021

Sýningar

Ragnheiður Gestsdóttir, Sigrún Hrólfsdóttir og Sindri Leifsson.

Veit andinn af efninu?

Verið hjartanlega velkomin á fyrstu sýningu ársins 2021 í Nýlistasafninu! Veit andinn af efninu? er samsýning Ragnheiðar Gestsdóttur, Sigrúnar Hrólfsdóttur og Sindra Leifssonar.

Ágrip

Ragnheiður Gestsdóttir (f. 1975) vinnur alla jafna í ólíka miðla; innsetningar, kvikmyndir, skúlptúr og ljósmyndir. Í verkum sínum vinnur hún með hugmyndir um þekkingarsköpun, tungumál og skynjun auk þess sem hún rannsakar og afhjúpar valdakerfi í samfélaginu. Auk myndlistarinnar er hún sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðakona og hefur gert nokkrar hefðbundnar og óhefðbundnar heimildamyndir sem sýndar hafa verið víðsvegar um heim, á kvikmyndahátíðum, söfnum og víðar. Ragnheiður lauk MFA námi í myndlist frá Bard College í New York fylki í Bandaríkjunum 2012 og MA námi í sjónrænni mannfræði frá Goldsmiths College í Lundunum 2001. Ragnheiður hefur sýnt víða bæði hérlendis, í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum. https://www.ragnheidurgestsdottir.net

Sigrún Hrólfsdóttir (f. 1973) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1993–96 og við Pratt Institute í New York á árunum 1996-97. Hún hefur numið listfræði og heimspeki við Háskóla Íslands og lauk MA gráðu í heimspeki frá HÍ árið 2016. Sigrún vinnur með ýmsa miðla aðallega teikningu, vídeó og innsetningar en hefur nú í seinni tíð snúið sér meira að málverki. Sigrún er ein af stofnendum Gjörningaklúbbsins (1996) og hefur sýnt með honum víða um heim. Sigrún starfar sem deildarforseti myndlistardeildar við Listaháskóla Íslands. Verk Gjörningaklúbbsins eru í eigu helstu safna á Íslandi, fjölmargra erlendra einka- og opinberra safna. Í verkum sínum skoðar Sigrún hið óefnislega svæði tilfinninganna og samspil innri heims þess persónulega við hinn ytri heim hugmynda, hluta og tákna.www.this.is/sigrunhrolfsdottir.

Sindri Leifsson (f. 1988) vekur upp spurningar um alræði vinnunnar og afurðanna sem til verða með áherslu á ferlið sjálft. Sindri Leifsson lauk MFA-gráðu frá Listaháskólanum í Malmö, Svíþjóð árið 2013 og BA-námi frá Listaháskóla Íslands árið 2011. Hann hefur verið virkur í sýningarhaldi og haldið einka- og samsýningar á Íslandi og víðsvegar um Evrópu.https://www.sindrileifsson.com


Sýningarstjóri

Sunna Ástþórsdóttir