08.10—20.11.2022

Sýningar

Anna Maggý, Ari Logn, BERGHALL – Anna Hallin & Olga Bergmann, Dorothy Iannone, Hrafna Jóna Ágústsdóttir, Níels Hafstein, Ragna Hermannsdóttir, Rb Erin Moran, Regn Sólmundur Evu, Róska, Svala Sigurleifsdóttir, Stephen Lawson, Viktoria Gudnadottir

Til sýnis: Hinsegin umfram aðra

Sýningunni er ætlað að draga fram hinsegin leika í safneign Nýlistasafnsins og sýna þá miklu grósku sem ríkir í  hinsegin listsköpun á Íslandi með nýjum verkum eftir framsækið hinsegin listafólk.

Ágrip

Anna Maggý 

hún / hennar

Anna Maggý er ljósmyndari og leikstjóri staðsett í Reykjavík. Í verkum sínum rannsakar hún efnislægan heim ljósmyndunar, samfélagsgerðir og mörk, gagnsæi og hverfulleika. Þó svo að Anna Maggý vinni þvert á miðla, svo sem myndbönd, klippimyndir og innsetningar, er ljósmyndunin í brennidepli hjá henni. Ljósmyndir hennar hafa verið birtar í alþjóðlegu tímaritunum Vogue Italia, British Vogue, Dazed and Confused og i-D

Hrafna Jóna Ágústsdóttir  

hún / hennar

Hrafna Jóna dregst oft að því dimma og drungalega í ljósmyndum sínum, kannski ekki skrýtið miðað við í hvaða landi við erum. Hún sér lífið raunsæjum augum og notar styrkleika sína og veikleika í sköpum verka sinna. Henni finnst gaman að fara út fyrir tvívídd ljósmyndarinnar með því að nota önnur skilningarvit eins og heyrn, snertingu eða tíma. Hrafna Jóna vill leyfa áhorfandanum að vera partur af verkinu og vera umvafinn því.

Regn Sólmundur Evu 

hán / háns

Regn Sólmundur Evu er kynsegin listakvár, sem notar fjölbreytta miðla í verk sín, en hefur sérstakt dálæti á tímatengdum miðlum, t.d. gjörningum og vídeólist. Hán velur miðla eftir því hvað hentar best hverju sinni og hefur fengist við málverk, skúlptúra, innsetningar, texta- og hljóðverk, grafík og vatnsliti og blandar miðlum saman eftir því sem er áhrifaríkast fyrir hvert verk.

Regn er áhugasamt um alls kyns jafnréttismál. Hán hefur sérstakan áhuga á netmenningu og samfélagsmiðlum, og notfærir sér þann áhuga í sköpun sinni. Regn vinnur á mjög persónulegan máta og skoðar sjálft sig í listsköpun sinni, hvernig hán passar inn í sameiginlega upplifanir þeirra hópa sem hán tilheyrir og hvernig ekki. Það var alveg óvart að Regn byrjaði að nota sjálft sig og eigin upplifanir sem viðfangsefni í sköpun sinni, en áttaði sig síðan fljótt á því að það sé besta leiðin fyrir hán til þess að miðla tilfinningum og skilaboðum. Regn fléttar þannig saman hinu persónulega og því pólitíska.

Ari Logn

hán / háns

Ari Logn er kynsegin listaspíra og fyrrverandi kynlífsverkamanneskja fætt á Íslandi og alið upp á Englandi. Hán útskrifaðist með BA próf í fagurlistum frá Beckett University í Leeds árið 2015. Listiðkun og listræn sýn háns eru byggð á reynslunni af því að lifa sem feitt hinsegin kvár undirokað af síð-kapítalisma okkar tíma. Í námi sínu kynntist Ari Logn fjölbreyttum leiðum til listsköpunar, allt frá bókagerð og ljósmyndun til myndskreytinga og vídeógerðar. Síðan Ari Logn flutti til Íslands árið 2016 hefur hán haldið bæði einkasýningar og tekið þátt í samsýningum auk þess að vera aðstoðarsýningarstýri við hinsegin sýningar í Galleríi 78 og Borgarskjalasafni Reykjavíkur í Grófarhúsi.

Viktoría Gudnadóttir 

hún / hennar

Viktoría Guðnadóttir er fædd á Íslandi, en býr og starfar í Hollandi. Hún lauk B.A. prófi í myndlist frá Art EZ (AKI) og framhaldsnámi frá the Dutch Art Institute í Hollandi. Að halda uppi spegli fyrir framan fólk og búa til aðstæður sem ögra þægindarammanum er eitt megininntakið í list Viktoríu. Verk hennar takast á við heiminn í kringum okkur; fjölmiðlamyndir af ofbeldi, minnihlutahópum í samfélaginu, ásamt ljótleikanum og fegurðinni sem finna má í hinu smæsta. Í verkum sínum lýsir hún einnig pólitískum skoðunum sínum og hikar ekki við að sýna sjálfsmynd sína hvort sem hún er þjóðleg, femínísk, kynferðisleg eða hinsegin. Viktoría notar ólík efni og miðla í verkum sínum. Svo sem myndbönd, ljósmyndir og málverk sem hún notar í innsetningar.

Verk Viktoríu hafa verið sýnd í Þýskalandi, Íslandi, Kína, Rússlandi, Belgíu og Hollandi.

Rb Erin Moran 

hán / háns

Amissa Verstraete (hán/háns) er belgískt dans- og listakvár búsett í Berlín.

Rb Erin Moran (hán/háns) er amerískt-íslenskt listakvár búsett milli Reykjavíkur, Berlínar og Los Angeles.

Við hittumst á appi, við hittumst á dansgólfi, við hittumst í almenningsgarði, við hittumst í fyrra lífi, við hittumst til að skapa þetta vídeó.

Það er stutt lýsing á okkur. Það var niðurhal, innsýn, líf sem var til fyrir. Það var millivíddaflakk, óður til ummyndunar, útvíkkuð nánd og skörun á lífsreynslu; fundur á kynsegin hraðbrautinni. Við hlóðum þessu myndbandi niður af bollakökunni á himninum. Við þráðum að fjalla um leik og nautn með sköpunarferli byggðu á leik og nautn. Við skemmtum okkur allan tímann. Við bjóðum ykkur að leika með í leiknum.

BERGHALL 

þær / þeirra

Anna Hallin (hún/hennar) og Olga Bergmann (hún/hennar) - saman mynda þær listamannateymið Berghall frá árinu 2005. Þær vinna með ólíka miðla og nota innsetningar, skúlptúra, ljósmyndir, kvikmyndir og teikningar í verkum sínum. Eitt af því sem einkennir verk Berghall er virkt samtal við það umhverfi sem listin er hluti af hverju sinni, hvort sem um er að ræða hefðbundið sýningarrými, s.s. listasafn, gallerí, borgarumhverfi eða náttúru. Olga og Anna hafa haldið fjölda einkasýninga bæði á Íslandi og erlendis og tekið þátt í sýningarverkefnum bæði í samstarfi og sem einstaklingar í Listasafni Íslands, Kling og Bang Gallerí, Safnasafninu, Listasafni Einar Jónssonar og á norræna tvíæringnum Momentum í Moss, Noregi. Einnig hafa þær unnið verk fyrir almannarými og opinberar byggingar í formi innsetninga innandyra og utan til dæmis útilistaverk fyrir nýja öryggisfangelsið á Hólmsheiði. Uppsprettu hugmyndanna í verkum þeirra má rekja til samspils manns og náttúru, líffræði, vísindaskáldskapar, sögulegra og staðbundinna þátta, félagslega strúktúra auk rannsókna á hegðun og hreyfimynstri manna og dýra.  Rými, staðir og samhengi eru mikilvægir þættir verka þeirra. Þær nálgast slík rými með það að leiðarljósi að verkin virki almannarýmin sem þau tengjast og veki áhuga fólks á umhverfi sínu, ýti undir hugarflug og hugrenningatengsl og opni ný sjónarhorn á tilveruna. Árið 2021 stofnuðu þær Gallerí undirgöng við Hverfisgötu sem er sýningarrými fyrir tímabundin útilistaverk.


Sýningarstjóri

Ynda Eldborg og Viktoría Guðnadóttir