26.08—03.10.2021

Sýningar

Klāvs Liepiņš, Renāte Feizaka, Raimonda Sereikaitė-Kiziria

Eins og þú ert núna var ég einu sinni / Eins og ég er núna, svo munt þú verða

Sýningaropnun fimmtudaginn langa, 26. Ágúst kl. 17–21.

EINS OG ÞÚ ERT NÚNA VAR ÉG EINU SINNI / EINS OG ÉG ER NÚNA, SVO MUNT ÞÚ VERÐA er samsýning þriggja myndlistarmanna sem búa og starfa á Íslandi, þeirra Klāvs Liepiņš, Renāte Feizaka og Raimonda Sereikaitė-Kiziria. Með ólík sjónarhorn mætast þau á töfrandi hátt á vettvangi óvissunnar sem fylgir manneskjunni.

Ágrip

Raimonda Sereikaitė-Kiziria (f. 1989) útskrifaðist með MA gráðu í skúlptúr við Listaháskólann í Vilnius árið 2014. Hún býr í dag á Hólmavik, Íslandi. Hún hefur tekið þátt í fjölda einkasýninga og samsýninga á Íslandi, í Hollandi, Litháen, Georgíu, Ítalíu og víðar. Oft eru verk hennar byggð á heimspekilegri og marghliða nálgun á mismunandi efni sem venjulega miðast við innri heim einstaklingsins, nútímamanneskjunnar. Verkin fjalla um aðstæður sem erfitt er að lýsa, innri reynslu og áhrif mismunandi félagslegs og menningarlegs samhengis. Hún sækir skapandi hugmyndir frá náttúrunni og borgararkitektúr, brýtur þær í smátt og endurmótar. Verk hennar taka oft mið af sögulegum listastefnum og eiginleikum þeirra (barokk, módernismi og popplist sem dæmi) og og velta þannig fram gnægð af tilvísunum. Algengustu hlutirnir / skúlptúrinnsetningarnar eru stórfelld, abstrakt, litrík, heildstæð og sértæk.

 

Renāte Feizaka (f. 1987) vinnur fyrst og fremst með skúlptúr og vídeó. Hún er með BA -gráðu frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands, og hefur verið virkur þátttakandi í myndlistarsýningum á Íslandi, þar sem hún býr og starfar. Verk hennar spanna það sjálfsævisögulega og sögulega, ásamt því pólitíska, þá oft í margbreytilegu, tragí-kómísku pólitísku samhengi. Þó að hún finni oft innblástur í eigin reynslu, þá leitast hún í verkum sínum eftir að eyða greinarmuninum á milli hennar sjálfrar, sjálfsmyndarinnar sem hún gengst við dagsdaglega og áhorfandans. Þó að hún sé nánast alltaf sýnd sem flytjandi í verkum sínum reynir hún að fjarlægja sinn eigin persónuleika með því að skapa meðvitund um persónu sem er ekki til.

 

Klāvs Liepiņš (f. 1991) hóf nám við lettneska lista- og menningarháskólann í Riga árið 2010. Hann flutti til Íslands árið 2012 þar sem hann lauk BA -gráðu í samtímadansi við Listaháskóla Íslands árið 2018. Eftir nám hefur hann unnið með listamönnum á borð við Sunnevu Ásu Weisshappel, Damien Rice, Helenu Jónsdóttir, Contact Gonzo og fleiri. Hann hefur meðal annars komið fram á Íslensku danshátíðinni Everybody‘s Spectacular, Survival Kit í Lettlandi, Homo Novus í Lettlandi, Ezera Skanas í Lettlandi og People Festival í Berlín, Þýskalandi. Hann vinnur sem listamaður hjá RVK Studios og er framkvæmdastjóri kvikmyndahátíðarinnar Physical Cinema Reykjavik. Í verkum sínum skoðar hann fáránleika hversdagsleikans, sjálfbærni, dans utan kóreógrafíu, kyn- og sjálfsmyndarmál í félagslegu og pólitísku samhengi. Klavs notast aðallega við gjörninga og vídeó í list sinni.


Sýningarstjóri

Katerína Spathí