6.19—8.8.2021

Sýningar

Baldur Geir Bragason, Inga Þórey Jóhannsdóttir, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, Ívar Valgarðsson

Efnisgerð augnablik

Hvert listaverk er einstök uppspretta sjónrænnar skynjunar og kveikja fyrir hugmyndafræðilegar vangaveltur. Efnisgerð augnablik sækir upphafspunkt í málverkið, tilurð þess og arfleið, en sýningin hverfist í raun um stað og stund sýningargesta. Markmiðið er að beina sjónum að því hvernig rýmisverkun listaverka eykur meðvitund áhorfenda um eigin líkama, nærveru og skynjun á umhverfinu. Slík listupplifun er ávallt einstaklingsbundin og kemur á líkamlegu sambandi milli áhorfanda, rýmis og verks – listupplifun sem á sér stað og verður til í andartakinu.

Ágrip

Baldur Geir Bragason (f.1976) útskrifaðist með BA gráðu í myndlist árið 2001 og fór svo í framhaldsnám í Berlín undir handleiðslu Karin Sander. Baldur Geir veltir gjarnan upp spurningum um tilveru hlutanna. Hann setur fram einfaldar táknmyndir eins og stól eða tröppur, en með efnisvalinu vísa hlutirnir í sjálfa sig á sama tíma og finna má í þeim listsögulegar skírskotanir. Baldur vinnur í ýmsa miðla, svo sem skúlptúr, málverk, ljósmyndir, vídeó, hljóð og teikningar. Hann hefur sýnt víða, á Íslandi og erlendis, í söfnum, galleríum og tilfallandi rýmum. Verk eftir Baldur er að finna hjá söfnurum á Íslandi og í safneign Listasafns Reykjavíkur. Undanfarin ár hefur Baldur haldið einkasýningar í Gerðarsafni og í salarkynnum Sambands íslenskra myndlistarmanna.

Inga Þórey Jóhannsdóttir (f. 1966) lauk námi í listkennslu frá Listaháskóla Íslands árið 2004. Hún nam við Hoochschule fur Angewandte Kunst í Vín í Austurríki árið 1989 og hafði áður lokið námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1988. Verk Ingu Þóreyjar fela gjarnan í sér samblöndun malerískra eiginleika þar sem mörk málverks og skúlptúrs renna saman. Í þeim koma saman sjónrænir þættir úr nánasta umhverfi, þar sem verkin umlykja áhorfandann og leika á rýmiskennd hans. Inga hefur hefur sýnt víða á Íslandi bæði á einka- og samsýningum, m.a. í Gerðarsafni, Ásmundarsal, Nýlistasafninu, Slunkaríki og Listasafni Reykjavíkur. Erlendis hafa verk hennar til að mynda verið sýnd í Berlín, Þórshöfn og London. Undanfarin ár hefur Inga sinnt sýningarstjórn, en hún stofnaði og rak um tíma sýningarrýmið Suðsuðvestur.

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir (f.1976) útskrifaðist með MA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2017. Hún lauk BA gráðu frá sama skóla árið 2007, en hafði áður lokið BA gráðu í listasögu frá háskólanum í Árósum. Í verkum sínum veltir hún fyrir sér stöðu málverksins í samtímanum ásamt sambandinu milli listaverks, áhorfanda og þess rýmis sem verkin eru sýnd í. Verkin eru oftast bundin ákveðnu rými þar sem hún notar ýmsar aðferðir til að umbreyta því, ýmist með því að þenja málverkið út eða byggja þrívíðar innsetningar sem áhorfandinn gengur inn í. Verk Ingunnar Fjólu hafa verið sýnd víða í söfnum og galleríum, svo sem í Hafnarborg, Gallerí Ágúst, alþjóðlega tvíæringnum Prague Biennale, Cuxhavener Kunstverein auk fjölda annarra.

Ívar Valgarðsson (f. 1954) útskrifaðist frá Stiching De Vrije Academie Den Haag í Hollandi árið 1980, áður lauk hann námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1975. Verk Ívars eru sprottin úr því umhverfi sem hann hefur lengst af dvalið í og starfað, það er á Íslandi. Skynjun spilar stórt hlutverk í verkum Ívars, myndheimur hans á sér stoð úr því umhverfi sem þau er sett upp í og um leið nokkurs konar viðbót við umhverfið. Ívar hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar hér á landi og erlendis, m.a. í Finnlandi, Færeyjum, S-Kóreu, Ungverjalandi, Svíþjóð og Danmörku. Verk hans hafa verið sýnd í fjölmörgum söfnum og galleríum á Íslandi m.a. í Listasafni Reykjavíkur, i8, Gerðarsafni, Listasafni ASÍ, Listasafni Íslands og víðar. Ívar er einn stofnenda Nýlistasafnsins.


Sýningarstjóri

Sunna Ástþórsdóttir. Þróun sýningarhugmyndar: Aldís Arnardóttir.