Bókakynning, 11. okt: We Are Here

11.10.2018 kl. 20

Bókaútgáfa og örsýning
Listamannaspjall með Detel Aurand og Claudia Hausfeld

Unnur Jökulsdóttir verður með upplestur úr We are Here

Nýlistasafnið býður ykkur velkomin á útgáfuhóf bókarinnar We are Here eftir Detel Aurand fimmtudaginn 11. október í Marshallhúsinu. Í tilefni útgáfunnar ræðir Claudia Hausfeld við Detel Aurand um verk hennar og Unnur Jökulsdóttir les upp úr We are Here. Dagskráin hefst kl. 20 og mun listamannaspjallið fara fram á ensku. Í tengslum við útgáfuna má sjá örsýningu á verkum Detel Aurand í anddyri Nýlistasafnsins fram til 16. október.

Upphaf og endir, svart og hvítt, anda inn og anda út, elli og æska – og allt þar á milli. Þessi bönd, oft utan okkar sjónsviðs, kannar þýski listamaðurinn Detel Aurand í bókinni We are Here. Bókin spannar verk unnin í ýmsa miðla frá síðustu tuttugu árum, ljósmyndir frá persónulegu safni listamannsins sem og sjálfsævisögulegum texta um fjarsamband hennar og maka hennar, Jóns Sigurgeirssonar (1909-2003) sem þau áttu í á milli Íslands og Berlínar. Eins og titillinn gefur til kynna hverfist We are Here um tímaskynið. Getum við skyggnst inn í núið? Hvað er sýnilegt og hvað leynist í skugganum? Bókin er jafn persónuleg og hún er algild og fjallar um það hvernig hlutir og atburðir í heiminum tengjast og hvernig mörk og landamæri, sem virðast vera til staðar, leysast upp þegar við komumst í kynni við tímalausa fegurð.

Hafðu samband

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map