Nýlistasafninu er ánafnað stórum hluta efnis úr vinnustofu Ólafs Lárussonar myndlistarmanns (1951 – 2014)

Fjölskylda Ólafs Lárussonar hefur gefið Nýlistasafninu mikið magn efnis úr vinnustofu Ólafs sem spannar tvo áratugi, frá og í kringum 1970 – 1990.

Þ.m.t hluti af persónulegu bókasafni hans, filmusafni, negatífur og upptökur af gjörningum, listaverk, ljósmyndir, skyggnur, sýningarskrár, boðskort, listrænar rannsóknir og tilraunir listamannsins, VHS upptökur, skissur, tillögur að listaverkum í formi teikninga, ljósmynda og verk á hugmyndastigi eða sem aldrei urðu að veruleika.

Nýlistasafnið mun flytja sýningarrými sitt í Marshall húsið út á Granda í byrjun næsta árs ásamt Kling og Bang gallerí og Ólafi Elíassyni. Sýningin, sem jafnframt mun opna nýtt rými safnsins við höfnina, verður yfirlitssýning á verkum Ólafs ásamt heimildum um gjörninga hans sem og öðru efni sem ekki komu fyrir sjónir almennings á meðan hann lifði. Sýningin mun einnig innihalda verk úr safneign Listasafns Íslands og Listasafni Reykjavíkur ásamt verkum í einkaeign, frá vinum og vandamönnum Ólafs sem og söfnurum.

Þorgerður Ólafsdóttir safnstjóri Nýlistasafnsins og Becky Forsythe safneignarfulltrúi safnsins, eru sýningastjórar sýningarinnar sem ber yfirskriftina Rolling Line. Titill sýningarinnar er fenginn úr ljósmyndaverki eftir Ólaf frá árinu 1975 þar sem hann sést fara í kollhnís úti í náttúrunni og vísar í að lína endi alltaf í hring. Titillinn á afar vel við inntak sýningarinnar sem leitast við að varpa ljósi á ákveðið tímabil í vinnu listamannsins; frá því að hann stundaði nám í Myndlista og handíðaskóla Íslands og allt til ársins 1981 þegar hann fór að snúa sér frá ljósmyndinni sem aðal miðli í listsköpun sinni.

Ólafur Lárusson fæddist árið 1951 og ólst upp í Austur – Meðalholtum og Hlíðunum. Hann stundaði nám við Myndlista og handíðaskóla Íslands frá 1971 – 1974 og hélt út til Haarlem í Hollandi í kjölfarið þar sem hann útskrifaðist frá Atalier ’63 árið 1976. Ólafur var afar afkastamikill listamaður á 8. – 9. áratugnum og átti stóran þátt í að móta áherslur innan íslenskrar listasenu. Hann var meðal síðustu listamanna sem teknir voru inn í gallerí SÚM og einn af stofnaðilum Nýlistasafnsins og var fyrsti vísir af safninu geymdur á vinnustofu hans í Mjölnisholti áður en stjórn safnsins fékk aðstöðu á Vatnsstíg 3b árið 1980.

Gjöf úr vinnustofu Ólafs markar ákveðin tímamót fyrir Nýló en er einnig mikilvæg viðbót við listasöguna. Þetta er í fyrsta sinn sem Nýlistasafnið tekur við heimildum sem varpa ljósi á ævi og starf listamanns með viðlíka hætti. Með gjöfinni fundust einnig upptökur frá gjörningi Ólafs, Regnbogi – sem hann sýndi í gallerí SÚM árið 1978 en hafa verið týndar í mörg ár. Á upptökunni má sjá listamanninn skalla og brjóta hangandi glerplötur sem málaðar hafa verið með öllum litum regnbogans, með höfðinu – svo að glerið sveiflast til og frá.

Gjöfin eflir vinnu Nýló við að safna, varðveita og skrá gjörningalist og undirstrikar mikilvægi þess efnis sem ekki er sýnt, heldur verður eftir á vinnustofu listamannsins; hugmyndavinna, ferli og þróun verka og er heimild um áherslur, strauma og stefnur á ákveðnum tíma.

Ólafur lést 4. desember 2014. Hann hefði fagnað 65 ára afmæli sínu í dag þann 10. september og vill því Nýlistasafnið minnast Óla og hans frábæra framlags til íslenskrar listasenu – til hamingju með daginn kæri Óli, fjölskylda og vinir!