17990450_1216630591793423_2442318970655347963_o

Framundan 22.apr..2017 – 2.Sep.2017

YFIRLESTUR myndlist í bókaformi úr safneign Nýlistasafnsins

YFIRLESTUR
myndlist í bókaformi úr safneign Nýlistasafnsins

22.04. – 02.09.2017
Völvufell 13 – 21, Breiðholt
Opið eftir samkomulagi

Myndlist í bókaformi er mótsagnakennt fyrirbæri: Bækur sem líta þarf á sem myndlistaverk, myndlist sem lesa þarf sem bókmenntaverk. Bókverk krefjast óhefðbundins lesturs sem felur ekki aðeins í sér að lesa texta heldur einnig lestur á hinu sjónræna, áþreifanlega og hugmyndalega; greiningu á formi og tegund bókarinnar sjálfrar.

Á sýningunni YFIRLESTUR má sjá myndlist í bókaformi úr safneign Nýlistasafnsins en þar er að finna um 800 titla sem mynda jafnframt stærsta safn bókverka á Íslandi. Sýningin er í formi lesstofu þar sem gestum gefst kostur á að skoða úrval verka úr safneigninni, eftir íslenska og erlenda listamenn, frá sjöunda áratug síðustu aldar til dagsins í dag. Lesstofan er einnig rannsóknaraðstaða sýningarstjórans og verður einkabókasafn hans sem samanstendur af ýmsum heimildum um bókfræði og bókverk

aðgengilegt gestum á meðan sýningunni stendur. Þar verður einnig hægt að hlusta á útvarpsþátt Níels Hafsteins um viðfangsefnið sem nefnist „Viðkvæmur farangur“ og var á dagskrá Rásar 1 árið 1986.

„Bókasafnið“ er óreiðukennt en um leið einstakt safn myndlistarverka og samanstendur af „annarskonar“ bókum sem ratað hafa þangað með ýmsum leiðum á síðustu fjörutíu árum. Rétt eins og bókverkin krefst bókasafnið óhefbundins lesturs ef gera skal tilraun til að átta sig á innihaldi þess. Því munu fara fram þrír þematískir yfirlestrar á bókasafninu á meðan sýningunni stendur og titlum lesstofunnar verður skipt út jafnóðum.

Í fyrsta yfirlestri sýningarstjórans á bókasafni Nýlistasafnsins er þemað SJÓNDEILDARHRINGUR.

Markmið sýningarinnar er að draga fram úr bókahillum safnsins verk sem sjaldan eða aldrei hafa komið fyrir sjónir almennings og rannsaka bókina sem myndlistarmiðil í samtímanum. Form sýningarinnar sameinar rými safneignarinnar, bókasafnsins og sýningarsalarins, og vekur upp spurningar um framsetningu og miðlun á myndlist í bókaformi: bækur sem lesandi á að horfa á og list sem áhorfandi á að lesa.

Í tengslum við sýninguna fer fram dagskrá þar sem hlýða má á upplestra úr bókum lesstofunnar og taka þátt í umræðum mynd- og rithöfunda um bókaformið. Viðburðirnir fara fram fyrsta laugardag í hverjum mánuði og verða nánar auglýstir síðar. Sýningin er hluti af yfirstandandi rannsókn Heiðars Kára Rannverssonar á íslenskum bókverkum en stefnt er að því að gefa út bók um efnið síðar á árinu.

Rannsóknin hlaut styrk úr Myndlistarsjóði og Safnasjóði.

Leiðangurinn_1

Framundan 21.Ágú.2017 – 24.Sep.2017

Leiðangurinn á Töfrafjallið

Nýlistasafnið býður ykkur innilega velkomin á sýningu Leiðangursins á Töfrafjallið, mánudaginn 21. ágúst, á nýju tungli, milli klukkan 18:00 – 20:00.

Leiðangurinn á Töfrafjallið (2013-2020)* er tilraun með tíma og rúm sem kannar skynjun, þekkingu og vitundarsvið, fyrr og nú. Við viljum líta út fyrir mörk okkar sjálfhverfu tilvistarskilyrða, og samtímis viðurkenna og horfast í augu við öfl sköpunar og eyðileggingar í fortíð og samtíð.

Við nálgumst þau með aðferðum myndlistar, bókmennta, samræðna, athafna. Við yfirgefum sviðið og erum þar samt, leitum og finnumst innan þess og utan. Við skynjum verkefnið í senn sem getnað og fæðingu margbrotins huga; verk einstaklinga renna saman og flæða í tímabundnu rými reynslunnar. Við gröfum upp eyðiland neytendans, sem sífellt neytir í skorti og endalausri þörf fyrir meira þar sem ekkert meira er að hafa.

Leiðangurinn snýst um skynjun á evrópskri samtímamenningu í tengslum við skáldsöguna Töfrafjallið eftir Thomas Mann og um leið mótast hann af túlkun á stöðu eyjunnar Íslands í evrópskri menningu og sögu. Skáldsagan er endalaus könnun á mannlegri tilvist og bergmálar uppdráttarsýki evrópskrar menningar fyrir styrjaldirnar miklu í öræfum eyðilands auðhyggju samtímans.

Í október 2013 fór leiðangurinn í könnunarleiðangur frá jaðri Evrópu til sögusviðs skáldsögunnar. Hópurinn dvaldi á Berghotel Schatzalp í Davos sem er eitt af fyrrum berklahælum staðarins og talið er að Mann hafi nýtt sé til að lýsa Berghof-hælinu í sögunni. Hótelið var tómt meðan hópurinn dvaldi þar og skráði hughrif sín, skynjanir og samtöl í máli og myndum, kvikum sem kyrrum.

Leiðangurinn stendur yfir til vorsins 2020, með sýningum og gjörningum sem haldin verða í galleríum og öðrum stöðum á Íslandi og meginlandi Evrópu. Lokaniðurstöður verða birtar í bók sem inniheldur greinar, brot og listaverk. Leiðangurinn stefnir einnig að útgáfu fyrstu íslensku þýðingarinnar á Töfrafjallinu haustið 2020.

Í tengslum við sýninguna í Nýlistasafninu mun leiðangurinn standa fyrir eftirfarandi atburðum:

Fimmtudaginn 7. september kl. 20:00 – Listamaðurinn sem miðill.

Fimmtudaginn 14. september kl. 20:00 – Kortagerð og þýðingar.

Fimmtudaginn 21. september kl. 20:00 – Tónlist af Töfrafjalli.

*Leiðangursfélagar eru Ása Helga Hjörleifsdóttir, Birna Bjarnadóttir, Gauti Kristmannsson, Haraldur Jónsson, Karlotta Blöndal, Steingrímur Eyfjörð og Unnar Örn J. Auðarson.

Verkefnið er styrkt af Myndlistarsjóði, Hótel Holt, Seglagerðinni Ægi, Neskirkju, Háskóla Íslands, Eimskip, Epal, Slippfélaginu, Haugen gruppen ehf.