Framundan 13.sep.2017 – 13.des.2017

YFIRLESTUR myndlist í bókaformi úr safneign Nýlistasafnsins / ÆVINTÝRI

YFIRLESTUR
myndlist í bókaformi úr safneign Nýlistasafnsins

ÆVINTÝRI
13.09. – 13.12.2017
Völvufell 13 – 21, Breiðholt
Opið eftir samkomulagi

Myndlist í bókaformi er mótsagnakennt fyrirbæri: Bækur sem líta þarf á sem myndlistaverk, myndlist sem lesa þarf sem bókmenntaverk.

Bókverk krefjast óhefðbundins lesturs sem felur ekki aðeins í sér að lesa texta heldur einnig lestur á hinu sjónræna, áþreifanlega og hugmyndalega; greiningu á formi og tegund bókarinnar sjálfrar.

Á sýningunni YFIRLESTUR má sjá myndlist í bókaformi úr safneign Nýlistasafnsins en þar er að finna um 800 titla sem mynda jafnframt stærsta bókasafn slíkra verka á Íslandi.

Sýningin er í formi lesstofu þar sem gestum gefst kostur á að skoða úrval bókverka úr safneigninni, eftir íslenska og erlenda listamenn, frá sjöunda áratug síðustu aldar til dagsins í dag. Lesstofan er einnig rannsóknaraðstaða sýningarstjórans og verður einkabókasafn hans sem samanstendur af ýmsum heimildum um bókfræði og bókverk, gert aðgengilegt gestum á meðan sýningunni stendur.

Bókasafn Nýlistasafnsins er óreiðukennt en um leið einstakt safn myndlistarverka og samanstendur af „annarskonar“ bókum sem ratað hafa þangað með ýmsum leiðum á síðustu fjörutíu árum. þessi hluti safneignarinnar, rétt eins og bókverkin sjálf, krefst óhefbundins lesturs ef gera skal tilraun til að átta sig á innihaldinu. Því munu fara fram þrír þematískir yfirlestrar á bókasafninu á meðan sýningunni stendur þar sem titlum lesstofunnar verður skipt út jafnóðum.

Fyrsti yfirlestur nefndist SJÓNDEILDARHRINGUR en annar lestur ber titilinn ÆVINTÝRI og mun standa yfir frá september til desember 2017 .Þriðji og síðasti yfirlestur á bókasafni Nýlistasafnsins nefnis TILVÍSUN og mun fara fram á fyrstu mánuðum ársins 2018.

Markmið sýningarinnar er að draga fram úr bókahillum safnsins verk sem sjaldan eða aldrei hafa komið fyrir sjónir almennings og rannsaka bókina sem myndlistarmiðil í samtímanum. Form sýningarinnar sameinar rými safneignarinnar, bókasafnsins og sýningarsalarins, og vekur upp spurningar um framsetningu og miðlun á myndlist í bókaformi: bækur sem lesandi á að horfa á og list sem áhorfandi á að lesa.

Í tengslum við sýninguna fer fram dagskrá þar sem hlýða má á upplestra úr bókum lesstofunnar og taka þátt í umræðum mynd- og rithöfunda um bókaformið.

Viðburðirnir verða nánar auglýstir síðar.

Sýningin er hluti af yfirstandandi rannsókn á íslenskum bókverkum en stefnt er að því að gefa út bók um efnið á árinu 2018.

Sýningarstjóri: Heiðar Kári Rannversson

Rannsóknin hlaut styrk úr Myndlistarsjóði og Safnasjóði.

Framundan 6.okt.2017 – 10.des.2017

Does the Mirror Make the Picture

Nýlistasafnið kynnir með gleði sýningu Joan Jonas – Does the Mirror Make the Picture, í Nýlistasafninu, föstudaginn 6. október á Sequences myndlistarhátíð.

Joan Jonas er heiðurslistamaður Sequences myndlistarhátíða sem haldin verður í áttunda sinn í ár, víðsvegar um Reykjavík.

Síðan á sjötta áratugnum hefur Joan Jonas (f. 1936, New York) skapað nýstárleg verk í marga miðla, sem rannsaka tímatengt skipulag og pólitískt mikilvægi áhorfandans. Í verkum sínum blandar hún saman leikhúsi, dansi, hljóði, texta, teikningum, skúlptúr og vídeó/myndvörpun. Stoðir þeirra eru flöktandi sjálfsmyndir, frásagnartákn og -þræðir sem hafna þó línuleika fyrir hina tvíræðu og brotakenndu sögu.

Jonas er frumkvöðull á sviði vídeólistar. Hún notaði Portapak kvikmyndavélar árið 1970 til að kanna tilfærsluna frá myndavélinni til vörpuninnar yfir á líkamann og í hið lifandi rými. Í nýrri vídeóverkum, gjörningum og innsetningum hefur Jonas oft starfað með tónlistarmönnum og dönsurum, ásamt því að leita til bókmennta og goðsagna í marglaga rannsóknarvinnu sinni.

Á sýningu Jonas í Nýlistasafninu mun hún sýna úrval verka frá mismunandi tímabilum ferils hennar – allt frá fyrstu vídeóverkum hennar Wind (1968) og Song Delay (1973) til nýrra verka stream or river or flight or pattern (2016/2017), sem hún vann á nýlegum ferðum sínum um Feneyjar, Singapore, Nova Scotia og Víetnam.

Jonas mun einnig flytja gjörning í Tjarnarbíói sunnudaginn 8. október, í samstarfi við Maríu Huld Markan, tónskáld og tónlistarmann. Hægt er að nálgast miða hér á www.tix.is

Sequences myndlistarhátíð er tíu daga tvíæringur sem haldin er í Reykjavík dagana 6.–15. október 2017. Hátíðin í ár kynnir með stolti verk eftir tuttugu og einn innlenda og erlenda listamenn. Þetta verður í áttunda sinn sem Sequences hátíðin er haldin

Sýningarstjóri Sequences VIII er Margot Norton, sýningarstjóri við New Museum í New York.

Mynd: Joan Jonas, Song Delay, 1973, stilla úr kvikmynd. © 2017 Joan Jonas / Artists Rights Society (ARS), New York.

Miðja Sequences VIII verður í Marshallhúsinu, heimkynnum Kling & Bang og Nýlistasafnsins.

Hátíðin mun einnig fara fram í öðrum listamannareknum rýmum og listastofnunum á höfuðborgarsvæðinu.

Til viðbótar við aðaldagskrá hátíðarinnar verður fjölbreytt utandagskrá víðsvegar um borgina.

Skipuleggjendur:
Nýlistasafnið, Kling & Bang og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar standa að Sequences. Í ár stýrir Margot Norton, sýningarstjóri The New Museum í NYC, hátíðinni í samvinnu við Eddu Kristínu Sigurjónsdóttur, ásamt meðlimum stjórnar Sequences.

Bakhjarlar:
Sequences nýtur stuðnings Myndlistarsjóðs, Reykjavíkurborgar, Promote Iceland, Iceland Naturally og hinnar alltumlykjandi, orkumiklu samvinnu listamanna!