Yfirstandandi10.jan.2020 – 23.feb.2020

Nokkur uppáhalds verk

Nokkur uppáhalds verk
10.01.2020 – 23.02.2020

Opnun 10.01.2020 kl. 17.00–19.00

Douwe Jan Bakker, G.Erla – Guðrún Erla Geirsdóttir, Mihael Milunović, Rúrí

Safnkostur Nýlistasafnsins er fyrir löngu orðinn goðsagnakenndur. Það fer eftir því hvern þú spyrð hvort í safneigninni megi helst finna perlur íslenskrar samtímalistar, skömmustuleg bernskubrek ástsælustu samtímalistamanna þjóðarinnar eða plássfrek og misgóð verk sem listamenn hirtu ekki um að sækja að sýningum loknum. En hverjum þykir sinn fugl fagur og Nýló stendur vörð um og miðlar þessum menningararfi, hvað svo sem öðrum finnst.


Þegar sýningarstjórar heimsækja safngeymslurnar í þeim tilgangi og skoða verk sem þeir hafa áhuga á að hafa með í sýningu þá eru viðbrögðin stundum: „Ó, er þetta svona?“ Ímyndin sem þau voru með af verkinu í huganum og hvernig það tengist sýningarhugmynd þeirra helst ekki í hendur við upplifun af verkinu í eigin persónu.

En hvað með öll þessi verk? Sum þeirra eru alveg frábær en fá aldrei að fara lengra en úr geymslunni inn í millirými og til baka. Ýmist vegna stærðar, því verkið er minna eða stærra en fólk hafði ímyndað sér eða þá vegna umstangs til að gera það sýningarhæft, til dæmis innrömmun, forvarsla eða flókinn flutningur. Oft eru þetta líka sömu verkin sem sífellt er beðið um að sjá og valda síðan sýningarstjórum vonbrigðum og er á endanum hafnað. Maður tengist þessum verkum óneitanlega ákveðnum böndum.


Á þessari sýningu fá nokkur þessara verka frelsi til að vera til sýnis almenningi án pressu um að passa inn í eitthvað níðþungt curatorial concept, án þess að vera látin leika hlutverk í sögu safneignar Nýlistasafnsins og án þess að vera þvinguð í samtal við önnur verk á sýningunni. Þó er ekki þar með sagt að samtalið geti ekki átt sér stað þegar áhorfandi setur þau í sitt eigið samhengi en fyrst og fremst eru verkin hér til að standa á eigin fótum á eigin forsendum og eini hugmyndaramminn er að vera eitt af uppáhaldsverkum núverandi safneignarfulltrúa í safneigninni.

Sýningarstjóri: Birkir Karlsson

Mynd: Mihael Milunovic – Hluti af Mobile (War, Plague, Hunger, Hate, Death), 1999

Yfirstandandi2.jan.2020 – 5.jan.2020

Nýló Afmælispartý ! 4. jan 2020 !

NÝÁRS- OG AFMÆLISFÖGNUÐUR NÝLISTASAFNSINS 2020
[english below]

Kæru vinir,
Nýlistasafnið verður 42 ára! Því verður fagnað laugardaginn 4. janúar 2020 með afmælis- og nýársfögnuði sem mun sprengja alla stærðarskala! Glæsileg tónlistar- og gjörningadagskrá, Gin-bar og happadrætti. Verið öll hjartanlega velkomin í Marshallhúsið og fagnið með okkur nýju ári í Nýlistasafninu.

Húsið opnar kl. 20:00 og er aðgangur aðeins 1500 krónur. Fordrykkir í boði fyrir fyrstu gestina og barinn verður að sjálfsögðu opinn með veigar á góðu verði.

FRAM KOMA:
** Dj Höggó ** Myndhöggvarafélagið Í Reykjavík
** Dj Kling & Bang ** Kling & Bang
** We Are Not Romantic **
** Holdgervlar **
** Geigen **
** SODDILL **
** AXIS DANCEHALL**
** Bjartar sveiflur**

SÉRLEGIR GESTGJAFAR KVÖLDSINS:
Tara og Silfrún (Tara Njála Ingvarsdóttir & Silfrún Una Guðlaugsdóttir)

MEÐ SÉRSTAKRI AÐSTOÐ FRÁ: Sean Patrick O’Brien

Yfirstandandi1.des.2019 – 22.des.2019

Ljósabasar

Fjáröflun fyrir Nýlistasafnið
Listaverkabasar og viðburðir fyrir alla fjölskylduna

1.–22. desember 2019 í Nýlistasafninu

Opnar 1. desember kl. 12

Verið hjartanlega velkomin á Ljósabasar Nýlistasafnsins sem opnar sunnudaginn 1. desember kl. 12:00. Opið verður til 18:00.

Í desember taka fulltrúar Nýlistasafnsins höndum saman og efna til veglegs listaverkabasars í Nýlistasafninu þar sem listaverk yfir 50 listamanna verða til sölu. Verkin eru jafn fjölbreytileg og þau eru mörg en eiga það öll sameiginlegt að tengjast ljósi á skapandi hátt: Verk um ljós, verk sem lýsa, ljósainnsetningar, neonljós, kertaljós, ljósmyndir, huglæg ljós og áfram má endalaust telja. Markmiðið er að lýsa upp skammdegið. Ljósabasar Nýló er einstakt tækifæri til að gefa list í jólagjöf og fjárfesta í samtímalist á hagstæðu verði.

Basarinn fer fram í húsakynnum Nýlistasafnsins í Marshallhúsinu dagana 1.–22 desember. Fjölbreyttir viðburðir fyrir fólk á öllum aldri verða haldnir á meðan á basarnum stendur en dagskrána er að finna hér til hliðar.


Opnunartímar Ljósabasars Nýlistasafnsins

Þri–sun 12-18
Fim 12-21
Lokað á mánudögum

Verðlisti Ljósabasars

Smellið hér

Ljósabasar Nýló er fjáröflunarviðburður til stuðnings Nýlistasafnsins. Nýlistasafnið, eða Nýló eins og safnið er nefnt í daglegu tali, er listamannarekið safn og sýningarrými. Markmið Nýló er að varðveita og sýna samtímalist og vera vettvangur fyrir tilraunir og alþjóðlega umræðu um myndlist. Nýló hefur verið einn helsti vettvangur fyrir samtímalist á Íslandi og á einstakt safn verka eftir íslenska og alþjóðlega listamenn frá sjötta áratugnum til dagsins í dag.

Við hlökkum til að sjá ykkur. Áfram Nýló, tilraunagleðin og listin!


Dagskrá Ljósabasars Nýlistasafnsins

Sunnudaginn 1. desember 2019 kl. 12
Basar opnar. Jólaglögg og hátíðarstemning

Fimmtudaginn 5. desember 2019 kl. 18
Vinir Nýló. Arna Óttarsdóttir leggur lokahönd á vinaverk ársins 2020.
Vínyl-hlustunarpartý. Komdu með uppáhalds jólaplöturnar þínar.

Sunnudaginn 8. desember kl. 14-16
Gæðastund með börnunum. Jólaföndur og skuggaleikir. Skráning á nylo(at)nylo.is

Sunnudaginn 22. desember kl. 12-18
Lokadagur Ljósabasars

Yfirstandandi12.okt.2019 – 24.nóv.2019

Sequences IX – Í alvöru: Sýning b)

Sequences IX – Í alvöru
Sýning b)
Guðný Guðmundsdóttir, Kristinn G. Harðarsson, Arna Ýr Jónsdóttir, Karlotta Blöndal, Amanda Riffo, Margrét H. Sesseljudóttir, Miruna Dragan, Davíð Örn Halldórsson, Anna Þorvaldsdóttir
12.10.2019–24.11.2019
Opnun: 12. október 2019 kl. 17:00-20:00

Laugardaginn 12. október 2019 opnar sýning b) í Nýlistasafninu sem hluti af Sequences IX – Í alvöru. Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru: Guðný Guðmundsdóttir, Kristinn G. Harðarsson, Arna Ýr Jónsdóttir, Karlotta Blöndal, Amanda Riffo, Margrét H. Sesseljudóttir, Miruna Dragan, Davíð Örn Halldórsson, Anna Þorvaldsdóttir

Sequences real time art festival verður haldin í níunda sinn dagana 11.–20. október. Sýningarstjórar að þessu sinni eru Hildigunnur Birgisdóttir og Ingólfur Arnarsson. 34 listamenn taka þátt í hátíðinni og spannar framlag þeirra vítt svið; tónlist, texta, kvikmyndir, innsetningar, teikningar og skúlptúra svo eitthvað sé nefnt.


Í texta sýningarstjóra segir meðal annars:

„Við gátum ekki einskorðað okkur við rauntímalist eða tímatengda miðla sem er jú upphaflegur ásetningur hátíðarinnar. Áhuga- og þekkingarsvið okkar er vítt og brotakennt en ekki sértækt á því sviði. Við völdum þá leið að kljúfa hugtakið raun-tíma og kanna afstæði þessara tveggja hugtaka með virkni verka sem unnin eru í hina ólíkustu miðla. Við hefjum samtal við sýningagesti með vali á þeim verkum og viðfangsefnum sem hér er stefnt saman og víxlverkun og margvíslegri tengingu merkingarsviða þeirra.“

„Við höfum valið fjóra ólíka einstaklinga til að leggja orð í belg og bregðast á ólíkan hátt við grunnhugmynd okkar. Sýningagestir bæta síðan við sinni sýn og upplifun. Þetta er opinn tilgátu viðburður um tíma okkar og stað í tilverunni.“

Hér má lesa texta sýningarstjóra: https://sequences.is/I-ALVORU


Heiðurslistamaður hátíðarinnar er Kristinn Guðbrandur Harðarson, en hann hefur verið virkur í íslensku myndlistarlífi um áratuga skeið. Í verkum Kristins á sér stað persónuleg og ljóðræn úrvinnsla á hans nánasta umhverfi þar sem hann notast við fjölbreyttar miðlunarleiðir, texta, útsaum, skúlptúra, veggmálverk, teiknimyndir og gjörninga svo fátt eitt sé nefnt.
Einkasýning á nýjum verkum Kristins opnar í Ásmundarsal föstudaginn 11. október kl. 17.00. Hún er jafnframt fyrsta opnun hátíðarinnar.

Formleg dagskrá hátíðarinnar fer fram í sjö sýningarrýmum í Reykjavík og vegleg utandagskrá verður í boði. Dagskrá og nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar, www.sequences.is.

Yfirstandandi16.ágú.2019 – 29.sep.2019

Karl Ómarsson: Ómar af kynngimagnaðri fjarveru

Karl Ómarsson

Ómar af kynngimagnaðri fjarveru

16.08.-29.09.2019

Opnun 16. ágúst kl. 17-19

Hlutirnir sem blasa við virðast ekki vera neitt. Bara klessur eða blettir. Samhengislausir textar, brot eða leifar af óljósum minningum. Eitthvað sem fingurgómarnir hafa komist í snertingu við áður, handleikið og skoðað en virðast ekki eiga sér neina stoð lengur.

Ómar af kynngimagnaðri fjarveru, einkasýning Karls Ómarssonar í Nýlistasafninu, virkar sem leiðarljós og afvegur í senn.


Verkin fela í sér kunnuglega eiginleika; form, efni, línur, orð og liti, fyrirbæri sem við höfum áður litið auga, snert, hlustað á og loks fært í orð. Á sama tíma leysa yfirborð verkanna upp fyrirfram gefnar hugmyndir, fjarlægja samhengi og losa um þær upplýsingar sem hafa safnast saman í huganum yfir lengri tíma. Verkin ölva fremur en upplýsa og opna þannig á annan lestur — Leið út í bláinn. Stað þar sem fyrirmyndir og hliðstæður hafa verið fjarlægðar eða afmyndaðar. Eftir stendur rými til ímyndunar, aftengingar og upprifjunar þar sem léttilega er skautað framhjá því sjálfsagða.

Yfirstandandi13.jún.2019 – 4.ágú.2019

…og hvað svo?

… og hvað svo?

13.06–04.08.19
opnun kl. 18:00

Andreas Brunner, Eva Ísleifs, Freyja Eilíf, Fritz Hendrik IV, Huginn Þór Arason, Libia Castro & Ólafur Ólafsson, Rebecca Erin Moran, Rúna Þorkelsdóttir, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Þorvaldur Þorsteinsson, Þórður Ben Sveinsson

Verið velkomin á sýningaropnun … og hvað svo? fimmtudaginn 13. júní 2019 kl. 18:00.

Og hvað svo? Þessi orð fela í sér samtíning andstæðra tilfinninga. Undrun, uppgjöf, ótta og vanmátt. Tilhlökkun, gleði, spennu og von. Forvitni og afskiptaleysi. Þessir ólíku þræðir mætast allir í óvissunni.


Óvissunni um það sem hefði getað orðið, varð eða varð ekki og það sem koma skal. Óvissu sem rífur okkur upp úr núinu og inn í annan tíma, á nýja áfangastaði og inn í aðrar mögulegar atburðarásir. Og hvað svo?

Á sumarsýningu Nýlistasafnsins í ár mætast verk ellefu listamanna sem, hvert fyrir sig og í samtali sín á milli, ávarpa hið yfirvofandi og rannsaka listina sem áhrifavald. Hvað segir hún okkur um framtíðina? Getur listin breytt því sem á eftir að gerast? Jafnvel mörgum árum eftir að verkið var skapað? Hjálpar listin okkur að kljást við raunveruleikann eða hverfa á vit annarra heima? Hvert þá? Hvernig getur list verið pólitísk? Með því að taka afstöðu? Eða hjálpa okkur að flýja hversdaginn? Sýna okkur eitthvað sem jafnvel getur aldrei orðið?


Framtíðin er ekki enn gengin í garð og er því bæði óáþreifanleg og fjarlæg en sýningin er tilraun til að færa hana nær. Vettvangur til vangaveltna, til að skipta um skoðun. Verkin á sýningunni bjóða gestum að dvelja í óvissunni um stund. Þau hringsóla um hið ókomna, kaótíska og hræðilega, en líka drauminn um útópíur – því róttæk hugsun, skýjaborgir og hörmungaheimar framtíðarinnar nærast á tilhugsuninni um eitthvað betra.

Sýningarstjóri: Sunna Ástþórsdóttir

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóð og Safnaráði

Yfirstandandi4.maí.2019 – 26.maí.2019

Mjúk lending – Útskriftarsýning MA Myndlist

Mjúk lending
Útskriftarsýning MA Myndlist
Listaháskóli Íslands
4.05 – 26.05 2019
Opnun kl. 17:00

Í Mjúk lending kvíslast átta sjálfstæðar nálganir, sameinast og stundum skerast þær. Ákveðin orð flæða gegnum og opna og bjóða okkur á staði til að mætast á: ást, áfall, farvegur, fáránleiki, forvitni, hollusta, heimilislegt, á milli heima, millibil, myrkur, orka, ósamræmi, raunveruleiki, samkennd, samruni, sjálfsmynd, skjól, staður, svefn, tengsl og tilburðir til að „sjá“. Þessi orð eru virk í sýningunni, ná til margra sviða mannlegrar reynslu og viðurkenna tilvist öflugs innra ástands og tilfinninga. Kjarni þess sem listamennirnir kanna í verkum sínum er í raun hvað það þýðir að vera manneskja í heimi gegnsýrðum af félagslegum, menningarlegum og vistfræðilegum vandamálum.


Verkin spanna ýmsar uppgötvanir og kalla fram viðvarandi rannsóknir á getu listarinnar innan samskiptakerfa, persónulegrar tjáningar og sameiginlegs tungumáls.

Titill sýningarinnar – Mjúk lending – vísar í tímabundna jarðtengingu; ekki rótgróna, heldur sveigjanlega líkt og umsemjanlegan lokafrest. Titillinn felur einnig í sér eiginleikann til að staðsetja sjálfa sig í þessu tiltekna samhengi; samningaviðræður, tilraun, samkomulag og málamiðlun – allt eru þetta lausofin fyrirbæri í flæði. Prufa, útskrift, logn á undan skotinu inn í hið óþekkta.

MA nám í myndlist skapar nemendum vettvang til að dýpka og auka þekkingu sína á sviði samtímamyndlistar. Í gegnum nám sem er rannsóknartengt og vinnur með samfélagslegt samhengi myndlistarinnar er persónuleg sýn á eigin listsköpun styrkt og hún tengd fræðilegum forsendum fagsins.


Útskriftarnemendur í myndlist eru: Katrina Jane Perry, Kimi Tayler, Kirill Lorech, María Hrönn Gunnarsdóttir, Margrét Helga Sesseljudóttir, Pier Yves Larouche, Ragnheiður Guðmundsdóttir, Sihan Yang

Sýningarstjóri:
Becky Forsythe

Fagstjóri MA náms í myndlist:
Bryndís Snæbjörnsdóttir

Fagstjóri MA fræða í myndlist:
Jóhannes Dagsson

Yfirstandandi14.mar.2019 – 28.apr.2019

Allt fínt, einkasýning Örnu Óttarsdóttur

Allt fínt.

Verið velkomin á opnun sýningar Örnu Óttarsdóttur þann 14. Mars milli kl: 18:00-20:00


„Kórallituð, laxableik, spítalableik, föl, rjóð, sæt, kokteilsósa, rós, dögun, rökkur, ástin, sólarupprás, sólsetur; Arna litar orðin. Mjúkir og mildir bleikir tónar dofna og skerpast í verkunum og kalla fram hlýjar myndir: húðfellingar, pinnamatur, blíð snerting, hráleiki, innvortis, útvortis, lyf, nostalgía, örvun – allt unaðslega bleikt. Burtséð frá sögulegum eða kynbundnum tilvísunum er eins og litaval listamannsins komi frá undirmeðvitundinni, innsæi og tilfinningu. Sýningin „Allt fínt“ er í mildri litapallettu sem býður upp á mismunandi blæbrigði merkingar.“


Arna Óttarsdóttir (f. 1986) útskrifaðist árið 2009 frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Hún hefur undanfarin ár helgað sig vefnaði og myndmálið sækir hún í hversdagsleikann, skissubækur sínar, og helgast valið ekki af fágaðri útfærslu frummyndarinnar, heldur frekar mögleika þess til frekari tilrauna og úrvinnslu.

Mynd af verki: „Hæ“ 2018, ljósmynd tekin af Vigfúsi Birgissyni

Sýningaskrá

Yfirstandandi10.jan.2019 – 3.mar.2019

Fyrstu sýningar ársins: Bjarki Bragason & Kolbeinn Hugi Höskuldsson

Verið hjartanlega velkomin á fyrstu sýningar ársins í Nýlistasafninu á árinu 2019.

17.01.2019 – 03.03.2019

ÞRJÚÞÚSUND OG NÍU ÁR

Bjarki Bragason

Sýningaskrá og texta má sjá hér


Cryptopia One: A Beginning Is A Very Delicate Time

Kolbeinn Hugi Höskuldsson

Sýningaskrá og texta má sjá hér

Yfirstandandi20.des.2018 – 5.jan.2019

Afmælispartý Nýló !

NÝÁRS- OG AFMÆLISFÖGNUÐUR NÝLISTASAFNSINS

5. janúar 2019 kl. 20:30

Verið hjartanlega velkomin í nýárs- og afmælisfögnuð Nýlistasafnsins. Þann 5 janúar á nýju ári verður safnið 41 árs og býður að því tilefni til veislu í Marshallhúsinu sem mun sprengja alla stærðarskala! Gjörningar, plötusnúðar, tombóla og ýmsar aðrar uppákomur. Allir velkomnir!

Húsið opnar kl. 20:30. Miðinn kostar 1500 kr við dyr og er einn drykkur innifalinn í miðaverðinu. Barinn verður að sjálfsögðu opinn með veigar á góðu verði.

Fagnaðu nýju ári með okkur!

Kíktu í heimsókn

Heimilisfang

 • Nýlistasafnið
 • Marshallhúsið
 • Grandagarður 20
 • 101 Reykjavík
 • Ísland

Opnunartímar

 • þri til sun 12 – 18
 • fim 12 – 21
 • lokað á mánudögum
 • Almenningssamgöngur

  • Strætó: 14
  • Stöð: Grandi

Hafðu samband

 • S: +354 551 4350
 • N: nylo(at)nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map