Yfirstandandi14.mar.2019 – 28.apr.2019

Allt fínt, einkasýning Örnu Óttarsdóttur

Allt fínt.

Verið velkomin á opnun sýningar Örnu Óttarsdóttur þann 14. Mars milli kl: 18:00-20:00


„Kórallituð, laxableik, spítalableik, föl, rjóð, sæt, kokteilsósa, rós, dögun, rökkur, ástin, sólarupprás, sólsetur; Arna litar orðin. Mjúkir og mildir bleikir tónar dofna og skerpast í verkunum og kalla fram hlýjar myndir: húðfellingar, pinnamatur, blíð snerting, hráleiki, innvortis, útvortis, lyf, nostalgía, örvun – allt unaðslega bleikt. Burtséð frá sögulegum eða kynbundnum tilvísunum er eins og litaval listamannsins komi frá undirmeðvitundinni, innsæi og tilfinningu. Sýningin „Allt fínt“ er í mildri litapallettu sem býður upp á mismunandi blæbrigði merkingar.“


Arna Óttarsdóttir (f. 1986) útskrifaðist árið 2009 frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Hún hefur undanfarin ár helgað sig vefnaði og myndmálið sækir hún í hversdagsleikann, skissubækur sínar, og helgast valið ekki af fágaðri útfærslu frummyndarinnar, heldur frekar mögleika þess til frekari tilrauna og úrvinnslu.

Mynd af verki: „Hæ“ 2018, ljósmynd tekin af Vigfúsi Birgissyni

Sýningaskrá

Yfirstandandi10.jan.2019 – 3.mar.2019

Fyrstu sýningar ársins: Bjarki Bragason & Kolbeinn Hugi Höskuldsson

Verið hjartanlega velkomin á fyrstu sýningar ársins í Nýlistasafninu á árinu 2019.

17.01.2019 – 03.03.2019

ÞRJÚÞÚSUND OG NÍU ÁR

Bjarki Bragason

Sýningaskrá og texta má sjá hér


Cryptopia One: A Beginning Is A Very Delicate Time

Kolbeinn Hugi Höskuldsson

Sýningaskrá og texta má sjá hér

Yfirstandandi20.des.2018 – 5.jan.2019

Afmælispartý Nýló !

NÝÁRS- OG AFMÆLISFÖGNUÐUR NÝLISTASAFNSINS

5. janúar 2019 kl. 20:30

Verið hjartanlega velkomin í nýárs- og afmælisfögnuð Nýlistasafnsins. Þann 5 janúar á nýju ári verður safnið 41 árs og býður að því tilefni til veislu í Marshallhúsinu sem mun sprengja alla stærðarskala! Gjörningar, plötusnúðar, tombóla og ýmsar aðrar uppákomur. Allir velkomnir!

Húsið opnar kl. 20:30. Miðinn kostar 1500 kr við dyr og er einn drykkur innifalinn í miðaverðinu. Barinn verður að sjálfsögðu opinn með veigar á góðu verði.

Fagnaðu nýju ári með okkur!

Yfirstandandi18.des.2018 – 16.jan.2019

LOKAÐ milli sýninga og jólafrí

Kæru gestir,

Nú er lokað í safninu á milli sýninga og vegna jólafrís. Við minnum á árshátíð og afmælispartý Nýlistasafnsins sem verður haldi 5. janúar næstkomandi.

Nýtt sýningarár hefst svo 17. janúar 2019.

Gleðileg jól !

Yfirstandandi13.des.2018 – 16.des.2018

STREYMI

Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir, Freyja Eilíf, Heiðrún Viktorsdóttir, Sigthora Odins verða með opnun á STREYMI í Nýlistasafninu, föstudaginn 14. desember 20:00 – 22:00.

Sýningin er þriðji partur af sýningaröð safnsins „Rúmelsi“ þar sem áhersla er lögð á frumkvæði listamanna og er Streymi sýningarviðburður Ekkisens í sýningaröðinni. Opið verður þessa einu helgi, laugardag og sunnudag 12:00 – 18:00. Gerningar á opnun og léttar veigar!


STREYMI er rúmelsi, sem á sér stað í vernduðu millirými, hlöðnu upp með gerningarverkum sem kynna starfsemi Ekkisens á huglægan hátt. Fyrir rúmelsið hafa seiðsysturnar Freyja Eilíf, Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir, Heiðrún Viktorsdóttir og Sigthora Odins tengt saman rásir sínar og dregið upp hring. Rúmelsið þeirra er almynd úr orkumynstri og þráðum sem eru spunnir úr samstilltu hugðarefni.

Stream-spirit-puddle-power er óformlegt heiti á kollektífi myndlistarkvennanna sem hafa streymt saman í lífi og starfi frá árinu 2016. Listrænar rannsóknir þeirra eru fasafléttur sem leiða saman snúrur úr heimum myndlistar, frumefna, fjölvíddar og fjölkynngis. Fljótandi samstarf þeirra spannar t.a.m. sýningarstjórn og verk á Fjöltengi (2015), Kynleikum (2015), Stream in a puddle (Tallinn Art Week, Eistlandi 2016), Computer Spirit (Tromsö, Noregi 2018) og útgáfu á tímaritinu Listvísi (2015- ). Í gegnum sýningarstörf í Ekkisens lá leið hópsins í Streymi saman og úr varð seiðsystrateymi sem nú hefur spannað af sér tveggja ára samtal.


Ekkisens hefur verið starfrækt af Freyju Eilíf sem rými utan um sýningar, útgáfur og sköpun frá árinu 2014, á jarðhæð í bárujárnshúsi á Bergstaðastræti sem hefur nú haldið utan um yfir 60 listræna viðburði. Að auki hefur Ekkisens haldið utan um þónokkrar alþjóðlegar ferðasýningar, nú síðast „Synthetic Shorelines“ í Los Angeles sem hlaut afar jákvæða umfjöllun eftir rithöfundinn Genie Davis á Riot Material. Heiðrún Viktorsdóttir starfaði í Ekkisens árið 2015 og hlaut Ekkisens tilnefningu til menningarverðlauna DV fyrir listræna stjórn 2016 árið eftir og Freyja Eilíf var handhafi Tilberans sama ár fyrir hugrekki og framtaksemi á sviði myndlistar.

Mynd:
„Hola“
Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir
35 mm filma
2016

Nánari upplýsingar:
ekkisens.com

Yfirstandandi13.nóv.2018 – 16.des.2018

Rúmelsi #1 #2 #3

Rúmelsi #1

heimildarsafn Nýlistasafnsins um Frumkvæði Listamanna
.


Rúmelsi #2

Laumulistasamsteypan


Rúmelsi #3

Ekkisens

Yfirstandandi30.ágú.2018 – 28.okt.2018

Eygló Harðardóttir: Annað rými

Eygló Harðardóttir

Annað rými

Opnun:
06.09.2018, kl. 17

Síðasti sýningardagur:
28.10.2018

Verk Eyglóar á sýningunni Annað rými eru í stöðugri þróun. Á sinn hátt minnir ferlið á vöxt kristalla, sem kallar á viðbrögð umhverfisins við hverja hreyfingu og viðbótar örvun. Sumum verkanna tekst að ögra rýminu og gefa okkur hugmynd um aðra möguleika, á meðan önnur gefa því ákveðna staðfestingu og auka meðvitund okkar um það. Litir, efnisgerð og fundnir hlutir mynda áreynslulaust jafnvægi milli verkanna, þar sem þeim er raðað og mynda tímabundið annað rými.


Eygló vinnur gjarnan með fundin efni og beitir innsæi sínu þegar hún meðhöndlar efnivið verka sinna. Í vinnuferli sínu er hún ekki með fyrirfram ákveðnar væntingar um lokaútkomu í huga en þess í stað dregur hún hið óvænta fram á yfirborðið. Sköpunarferlið einkennist af könnun á efninu, þar sem möguleikar og takmarkanir eru kortlögð, og auðkenni þess rannsökuð. Eftir stendur verk sem er afsprengi ferils þar sem efnið hefur ráðið för, það teygt og því breytt, og því fengið annað hlutverk.

Eygló Harðardóttir (f. 1964, Reykjavík)
vinnur gjarnan skúlptúra og staðbundnar innsetningar, tví- og þrívíða abstraktskúlptúra úr pappír, innsetningar og bókverk. Hráefni eins og pappír, bæði nýr og endurnýttur, litríkir afgangar, plast, viður, grafít og gler leggja grunn að hugmyndum Eyglóar og drifkraftur til að kanna möguleika og takmarkanir miðilisins hverju sinni.


Eygló lærði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1983-87) og Akademie voor Beeldende Kunst en Industrie, í Enschede, Hollandi (1987-90), en auk þess hefur hún lokið Meistaragráðu í Kennslufræðum við Listaháskóla Íslands (2014). Á ferli sínum hefur Eygló haldið fjölda sýninga, þar á meðal einkasýningar í Harbinger (2015), Nýlistasafninu (1994, 1998 og 2002), Listasafni Reykjavíkur, Ásmundarsafni (2003) og Listasafni ASÍ (2007 og 2013). Verk Eyglóar eru meðal annars varðveitt í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Ríkisútvarpinu og menningarsetrinu Kultuurikauppila í Finnlandi. Frá árinu 2015 hefur Eygló unnið innan ramma bókverksins og dvaldi hún nýlega hjá WSW Residency, í New York. Þar gerði Eygló ýmsar efnis- og litatilraunir á prentverkstæði, og varð útkoman meðal annars bókverkið Annað rými, sem er hér til sýnis.

Yfirstandandi18.ágú.2018

WHAT ARE PEOPLE FOR?

Tonlistargjörningur eftir
Önnu McCarthy og
Manuela Rzytki

18.08.2018
kl. 21:30 – 22:30

WHAT ARE PEOPLE FOR? er samstarf tónlistarmannsins Manuela Rzytki og listamannsins Anna McCarthy.

Verkefnið dregur titil sinn af útgáfu og listasýningu McCarthy og merking titilsins er lykillinn að innihaldi og texta verksins.

Hljóðheimur þeirra rekur rætur sínar til hip-hop tónlistar, með blöndu af lúppum, sömplum og lifandi söng og hljóðfæraleik þeirra beggja.


McCarthy notar myndvarpanir til að styðja við frásögn textans, sem eru fyndnar, herskáar, kynþokkafullar og

ástúðlegar barnavísur sem spyrja áhorfandann TIL HVERS ER FÓLK? Frasar á borð við „dularfullt kjöt“, „manndráps pizzavélar“, „sameiginlegir drónadraumar“ og „aftur til moldarinnar“ koma við sögu.

Viðburðurinn er sennilega ekki barnvænn, en hann er fyrir börn, því þið eruð öll börn og þetta er stór leikskóli sem snýst hring eftir hring eftir hring. Þetta er hip-hop en líka eins konar leiklestur, útvarpsleikrit, með hljóðeffektum, sem sækir áhrif sín til Missy Elliott, Raymond Scott, White Noise, The Goons, Ragamuffin, Sleaford Mods, Tyondai Braxton, Tagaq, Tipsy og The Moomins.


Anna McCarthy lærði við Kingston University of Art & Design, Akademie der Bildenden Künste München og Glasgow School of Art.
Síðustu ár hefur hún tekið þátt í sýningum í Bosníu og Hersegóvínu, München. Hún einskorðar sig ekki við eina aðferð heldur blandar saman innsetningum, tónlist, vídeólist, gjörningum, teikningum, klippimyndum og málverkum.

Manuela Rzytki er tónlistarmaður og hefur starfað með hljómsveitunum við PARASYTE WOMAN, LE MILLIPEDE, GRAG & die Landlergeschwister, KAMERAKINO og fjölmörgum leikhúsverkefnum við Residenztheater, Kammerspiele og Volkstheater í München og Staatschauspiel í Darmstadt og Köln.

Yfirstandandi7.jún.2018 – 12.ágú.2018

Djúpþrýstingur

Nýlistasafnið býður ykkur hjartanlega velkomin á opnun 40 ára afmælissýningar safnsins Djúpþrýstingur, fimmtudaginn 7. júní kl. 18:00.

Nýlistasafnið (Nýló) var stofnað árið 1978 af hópi 27 listamanna og er í dag eitt elsta safn og sýningarrými í Evrópu sem rekið er af listamönnum. Safneignin telur yfir 2.000 verk auk þess að varðveita mikið magn heimilda, m.a. einstakt arkíf um gjörningalist á Íslandi og listamannarekin rými.

Í fjörutíu ára sögu Nýló hafa yfir 2.500 íslenskir og erlendir listamenn komið að sýningum og viðburðum í safninu.

Nýlistasafnið er orðið miðaldra, því ber að fagna!


Listaverkin sem voru valin á sýninguna hafa öll ólíkar en sterkar skírskotanir til samtíma okkar, þá og nú. Hvort sem tengingarnar fara inn á hversdagsleg smáatriði, dægurmenningu, ferðamannaiðnaðinn eða ástand heimsmála.

Verkin gefa gestum því mörg ólík sjónarhorn á atburði líðandi stundar. Þau varpa fram viðvarandi aðstæðum eða andartökum sem líða hægt, eða hratt. Sum listaverkin eru stækkunargler og önnur stjörnukíkir.

Á meðan sýningunni stendur verður fjölbreytt viðburðadagskrá, þ. á m. listamannaspjall, gjörningar og viðburðir.

Sýningin hlaut styrki úr Myndlistarsjóði og Safnasjóð. Hún er auk þess hluti af dagskrá aldarafmælis Fullveldis Íslands og styrkt af afmælisnefnd..


Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru:
Atli Heimir Sveinsson, Andreas Brunner
Auður Lóa Guðnadóttir & Starkaður Sigurðarson, Ásgerður Birna Björnsdóttir, Ásta Ólafsdóttir, Björk Guðnadóttir, Daniel Pflumm, Dieter Roth, Douwe Jan Bakker, Edilson, Eirún Sigurðardóttir, Erika MacPherson, Rachel Zolf, Geoffrey Hendricks, Guðrún Einarsdóttir, High Heel Sisters, Hörður Ágústsson, Jóhanna Kristín Yngvadóttir, Jón Gunnar Árnason, Juliane Foronda, Kristín Helga Ríkharðsdóttir, Níels Hafstein, Róska, Rúna Þorkelsdóttir, Saga Sigurðardóttir, Sigurður Guðmundsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir og Veigar Ölnir Gunnarsson

Yfirstandandi24.mar.2018 – 20.maí.2018

Milli fjalls og fjöru

Ragna Róbertsdóttir
Milli fjalls og fjöru / Between mountain and tide
24.03.18 – 19.05.18

Það er Nýlistasafninu sönn ánægja að kynna sýningu Rögnu Róbertsdóttur, Milli fjalls og fjöru sem opnar laugardaginn 24. mars. Ferill Rögnu spannar yfir 30 ár af virku sýningarhaldi en fyrsta einkasýning hennar var í Nýlistasafninu árið 1986 þegar safnið var til húsa að Vatnsstíg 3b í miðbæ Reykjavíkur.

Í verkum Rögnu sameinast hugmyndir okkar um villta náttúru og manngert umhverfi í eitt. Maðurinn hefur haft áhrif á náttúruna frá því að hann fór að færa til steina, steina sem við getum enn séð standa í Bretlandi og Frakklandi. Allt í kringum Rögnu er þessi tegund hreyfðar náttúru, hvort sem hún er stödd á Hóli í Arnarfirði, í vinnustofu sinni í miðbæ Reykjavíkur eða á heimili sínu í Moabit hverfinu í Berlín.

Talið er að á Íslandi upplifi fólk í kringum fimm eldgos á ævinni. Með hverju gosi breytist landslagið. Náttúran er ekki kyrr, hún er stöðugt á hreyfingu, á milli okkar, vegna okkar og annarra afla. Tilhneiging okkar til þess að safna náttúru og hafa hana nálægt okkur er sterk allt frá barnsaldri. Við þurfum ekki að líta lengra en ofan í úlpuvasa barna eftir stutta fjöruferð til þess að vera minnt á að kúskeljar, steinvölur og skeljabrot eru gersemar.


Verk Rögnu eru afrakstur áratuga langs áhuga listamannsins á eiginleikum íslenskrar náttúru og hugleiðinga um form og efni umhverfisins, hvað gerist við hreyfingu og úrvinnslu efnis? Ragna hefur fylgst með strandlengjunni í Arnarfirði í fjölda ára, hversu fjölbreytilegt lífríkið í fjörunni er, dag frá degi, frá fjöru til flóðs. Hvernig fjöllin með sínum hrjúfu hraunbeltum umfaðma dalinn og strandlengjuna. En hún hefur líka tekið eftir því hvernig ströndin breytist, skeljunum fækkar og annað efni skolast á land í staðinn.

Verk Rögnu úr hrauni, vikri, salti, gleri, skeljum eða akrýlögnum, hafa sterkar skírskotanir í náttúruna, hreyfiafl hennar og breytileika. Hér er náttúra Íslands aðflutt. Eins og hún kemur upp úr jörðinni, upp úr sjónum, upp úr vösum okkar og Rögnu Róbertsdóttur.

Sýningarstjórar eru Þorgerður Ólafsdóttir & Becky Forsythe
Hönnun sýningar er í umsjón Ásmundar Hrafns Sturlusonar


Samhliða sýningunni verður gefin út vegleg bók frá forlaginu DISTANZ um feril Rögnu sem gefur heildstæða mynd af verkum hennar frá 9. áratugnum til dagsins í dag.
Textahöfundar bókarinnar eru Gregory Volk og Markús Þór Andrésson.

Hönnun og uppsetning er í umsjón Studio Studio (Arnar Freyr Guðmundsson & Birna Geirfinnsdóttir).

Ragna Róbertsdóttir (f. 1945) býr og starfar í Reykjavík og Berlín. Verk hennar hafa verið sýnd víða í Evrópu, Norður Ameríku, Kína og Ástralíu.

Á meðal nýlegra sýninga og verkefna Rögnu eru Staðir / Places í Arnarfirði (2016), Four Parts Divided, i8 (2016), Seascape, Listasafnid á Akureyri (2013), Firðir/Fjords, ásamt Hörpu Árnadóttur, Bíldudalur í sýningastjórn Markúsar Þórs Andréssonar (2012), Mindscape, Hamish Morrison Galerie, Berlín (2010), sýningar í Bury Art Gallery Museum + Archives, Bury, Englandi (2008), New Bedford Art Museum, Massachusetts, USA (2005), Chinese European Art Center, Xiamen, Kína (2004), Lisatsafni Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum (2004) og Listasafni Íslands (2003).

Kíktu í heimsókn

Heimilisfang

 • Nýlistasafnið
 • Marshallhúsið
 • Grandagarður 20
 • 101 Reykjavík
 • Ísland

Opnunartímar

 • þri til sun 12 – 18
 • fim 12 – 21
 • lokað á mánudögum
 • Almenningssamgöngur

  • Strætó: 14
  • Stöð: Grandi

Hafðu samband

 • S: +354 551 4350
 • N: nylo(at)nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map