Joan Jonas, heiðurslistamaður Sequences VIII, sýnir í Nýlistasafninu

Sequences VIII

Sequences myndlistarhátíð er tíu daga tvíæringur sem haldin er í Reykjavík milli 6.–15. október 2017. Hátíðin í ár kynnir með stolti verk eftir 21 innlenda og erlenda listamenn. Þetta er í áttunda sinn sem Sequences er haldin og að þessu sinni verður Joan Jonas heiðurslistamaður hátíðarinnar og heldur einkasýningu í Nýlistasafninu.

Markmið Sequences er að sýna framsækna myndlist með áherslu á tímatengda miðla; gjörninga, hljóðverk, vídeólist og myndlist í almenningsrými. Sequences er listamannarekin og sjálfstæð myndlistarhátíð sem haldin er annað hver ár og spratt upp úr fjölbreyttri og kvikri listasenu Reykjavíkurborgar. Boðið verður upp á úrval verka eftir listamenn og tónlistarfólk, sem margir hverjir taka þátt í samstarfi á milli miðla.

Miðja Sequences VIII verður í Marshallhúsinu, heimkynnum Nýlistasafnsins og Kling & Bang. Hátíðin mun einnig fara fram í öðrum listamannareknum rýmum og listastofnunum á höfuðborgarsvæðinu. Til viðbótar við aðaldagskrá hátíðarinnar verður fjölbreytt utandagskrá víðsvegar um borgina.

Sýningarstjóri Sequences VIII er Margot Norton, sýningarstjóri við New Museum í New York.

Elastic Hours

Þó Sequences kenni sig við „rauntíma“ í skilningi tímatengdra miðla, þá er áhersla Sequences VIII: Elastic Hours á hvernig listamenn upplifa tímann í sköpunarferlinu og hvernig þeir nota hann sem efnivið í verkum sínum; hvernig þeir beygja tímann og sveigja, snúa honum á rönguna.

Verkin á hátíðinni munu þannig fara handan staðlaðra mælikvarða og tækja til að mæla tímann og rannsaka annars konar tímaupplifun og mælingar í leit að öðrum leiðum til að mæla og upplifa tíma. Við erum minnt á að daglegur taktur okkar stjórnast ekki einungis af hefðum og staðsetningu heldur einnig af náttúruöflum sem lúta engri stjórn.

Á Íslandi er framrás tímans sérstaklega áþreifanleg, bæði vegna árstíðarbundins birtustigs og óblíðs veðurfars. Með óhefðbundnum útreikningi tímans munu listamennirnir fá okkur til að vera meðvitaðri og gagnrýnni á samband okkar við hluti, samfélagið og alheiminn í kringum okkur.

Joan Jonas, heiðurslistamaður hátíðarinnar

Síðan á sjötta áratugnum hefur Joan Jonas (f. 1936, New York, býr og starfar í New York) skapað frumleg og byltingarkennd verk í marga miðla, sem rannsaka tímatengt skipulag og pólitískt mikilvægi áhorfandans. Í verkum sínum blandar hún saman leikhúsi, dansi, hljóði, texta, teikningum, skúlptúr og vídeó/myndvörpun. Stoðir þeirra eru flöktandi sjálfsmyndir, frásagnartákn og -þræðir en hafna línuleika fyrir hina tvíræðnu og brotakenndu sögu.

Jonas er frumkvöðull á sviði vídeólistar. Hún notaði Portapak kvikmyndavélar árið 1970 til að kanna tilfærsluna frá myndavélinni til vörpuninnar til líkamans og hins lifandi rýmis. Í nýrri vídeóverkum, gjörningum og innsetningum hefur Jonas oft starfað með tónlistarmönnum og dönsurum, ásamt því að leita til bókmennta og goðsagna í marglaga rannsóknarvinnu sinni.

Á Sequences VIII mun Jonas vera með einkasýningu í Nýlistasafninu, þar sem úrval verka frá mismunandi tímabilum ferils hennar verða til sýnis – allt frá fyrstu vídeóverkum hennar Wind (1968) og Song Delay (1973) til nýrra verka stream or river or flight or pattern (2016/2017), verk sem hún hefur unnið frá nýlegum ferðum sínum um Feneyjar, Singapore, Nova Scotia og Víetnam.

Jonas mun einnig halda tilraunakenndan fyrirlestur í Tjarnarbíói sunnudaginn 8. október, þar sem nýtt samstarf við Maríu Huld Markan, tónskáld og tónlistarmann, verður kynnt til sögunnar.

Mynd: Joan Jonas, Song Delay, 1973, stilla úr kvikmynd. © 2017 Joan Jonas / Artists Rights Society (ARS), New York.

Skipuleggjendur: Nýlistasafnið, Kling & Bang og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar standa að Sequences og í ár stýrir Margot Norton, sýningarstjóri The New Museum í NY, í samvinnu við Eddu Kristínu Sigurjónsdóttur að skipulagi hátíðinnar ásamt meðlimum stjórnar Sequences.

Bakhjarlar: Sequences nýtur stuðnings Myndlistarsjóðs, Reykjavíkurborgar, Promote Iceland, Iceland Naturally og hinar alltumlykjandi, orkumiklu samvinnu listamanna.

Myndlistarmenn

– Helena Aðalsteinsdóttir (f. 1990 Reykjavík. Býr og starfar í Amsterdam)

– Birgir Andrésson (f. 1955 Vestmannaeyjar, d. 2007 Reykjavík)

– Hildigunnur Birgisdóttir (f. 1980 Reykjavík. Býr og starfar í Reykjavík)

– Ásgerður Birna Björnsdóttir (f. 1990 Reykjavík. Býr og starfar í Amsterdam)

– Elín Hansdóttir (f. 1980 Reykjavík. Býr og starfar í Reykjavík)

– David Horvitz (f. 1982 Los Angeles. Býr og starfar í Reykjavík) í samstarfi við Jófríði Ákadóttur (f. 1994 Reykjavík. Býr og starfar í Reykjavík)

– Anna K.E. (f. 1986, Tbilisi, Georgía. Býr og starfar í New York og Düsseldorf) og Florian Meisenberg (f. 1980, Berlín. Býr og starfar í New York og Düsseldorf)

– Alicja Kwade (f. 1979 Katowice, Pólland. Býr og starfar í Berlín)

– Florence Lam (f. 1992 Vancouver, Kanada. Býr og starfar í Reykjavík)

– Nancy Lupo (f. 1983 Flagstaff, Arizona. Býr og starfar í Los Angeles)

– Sara Magenheimer (f. 1981 Philadelphia, Pennsylvania. Býr og starfar í New York)

– Rebecca Erin Moran (f. 1976 Greeley, Colorado. Býr og starfar í Reykjavík)

– Eduardo Navarro (f. 1979 Buenos Aires. Býr og starfar í Buenos Aires)

– Ragnar Helgi Ólafsson (f. 1971 Reykjavík. Býr og starfar í Reykjavík)

– Roman Ondák (f. 1966 Žilina, Slóvakía. Býr og starfar í Bratislava)

– Habbý Ósk (f. 1979 Akureyri. Býr og starfar í New York)

– Agnieszka Polska (f. 1985 Lublin, Pólland. Býr og starfar í Berlín)

– Aki Sasamoto (f. 1980 Yokohama, Japan. Býr og starfar í New York)

– Cally Spooner (f. 1983 Ascot, England. Býr og starfar í Reykjavík, London og Aþenu)

– Una Sigtryggsdóttir (f. 1990 Reykjavík. Býr og starfar í Reykjavík)