Nýlistasafnið býður ykkur velkomin á sýninguna We Need Better Endings eftir sænsku myndlistarkonuna Vildu Kvist. Sýningin er í nýju verkefnarými safnsins að Völvufelli 13-21, efra Breiðholti.

Skáldskapur er ákveðin útgáfa af raunveruleikanum. Sagður og endursagður sem skemmtun í gegnum fjölmiðla. Á öld samskiptavefja þar sem allir gera sér grein fyrir krafti mynda og framsetningu sjálfs okkar á nýjan máta aftur og aftur. Hvað kennir falskur fullkomleiki Hollywood okkur? Hverjir mega missa sín úr glamúrmyndunum og við hverja er hægt að miða? Hvaða ímyndum er þrýst upp á okkur í gegnum mistúlkun? Steríótýpur Hollywood eru endursköpun á því hvernig hamingja ætti að líta út og hverjir það eru sem fá að vera hetjur og aðalpersónur stórsagnanna.

Á sýningunni gefur á að líta fjögur verk sem mynda heildræna innsetningu. Verkið Unscripted: All Endings are Fictional er tvírása videó verk sem varpað er stórt á veggi Nýlistasafnsins. Annað videóið sýnir veg í eyðimörk eins og hann blasir við manni beint út um framrúðu bíls. Hitt videóið inniheldur frásögn en þar má sjá samkynheigt par sem ferðast á slóðum kvikmyndarinnar Thelma & Louise. Þær hefja ferðalagið þar sem síðasta sena kvikmyndarinnar var tekin upp. Þaðan stefna þær í átt að landamærum Mexíkó.


En vörður verða á vegi þeirra sem ekki er hægt að komast framhjá, hvorum megin við landamærin sem þú ert, neyða þær til þess að breyta um stefnu. Þær stefna í stað að Hollywood skiltinu, hjarta endurgerðarinnar þar sem ákvörðunin um hver það er er sem á skilið gleðileg endalok hefur verið tekin. Upp spretta vangaveltur um frelsið, hamingjuna og hreinsunina sem er undirliggjandi.

Vega myndir (e. Road Movies) eru líkt og tákn fyrir frelsistilfinningu og löngunina eftir henni. En á sama tíma gefa þær í skyn flótta frá einhverju. Algengt stef í vega myndum er reiði og sársauki þeirra sem eru á jaðri samfélagsins. Í grunnin snýst Thelma & Louise um tvær konur sem flýja feðraveldið og afleiðingar þess á líf þeirra. Kvist hefur aðra sýn á enda kvikmyndarinnar. Að hennar mati er enginn endir heldur vill hún að frásögnin haldi áfram í síendurtekinni hringrás sem opnar svo fyrir nýjum sögum og nýjum upphafspunktum. Sagan, sannleikurinn og staðreyndir eru sífellt endurritaðar og túlkaðar á nýja vegu.

Endalokin eru skáldskapur. Frásögninni lýkur aldrei í því áframhaldandi ferli sem við erum öll viljug eða óviljug þáttakendur í.

Fyrir sýninguna hefur Kvist framið hreinsunargjörning þar sem hún brenndi stóra eftirlíkingu af HOLLYWOOD stöfunum, hinu fræga kennileiti Los Angeles borgar. Þar sem þeir standa sem táknmynd drottnunar Hollywood yfir frásagnarforminu.


Leifar gjörningsins má finna á sýningunni. Hægt er að líta á gjörninginn sem framhald af fyrrnefndu verki Unscripted: All Endings are Fictional þar sem hluti þess fer fram á slóðum skiltisins.

Í stigagangi safnsins er hljóðverkið This Moment Is So Much Bigger Than Me en þar hefur listakonan klippt til Óskarsverðlaunaræðu Halle Berry frá árinu 2002. Halle Berry var þá og er enn eina blökkukonan sem hefur unnið til Óskarsverðlauna fyrir leik í aðalhlutverki. Hún ræður varla við það að halda aftur af brestandi rödd sinni í tilfinningaþrunginni ræðu. Kvist er aðdáandi ófullkomnunar og galla og gerir því meira úr þeim hlutum ræðunnar. Með þessari tímamóta ræðu fékk Halle Berry starfsfélaga sína og aðra úr kvikmyndaiðnaðinum til að gera sér grein fyrir kynþætti sínum, stöðu og misrétti fortíðar sem nútíðar. Áhorfandi verksins finnur sig undir því og gæti upplifað ákveðna fjarlægð eða tómleika þar sem röddin berst úr skúlptúr í formi svala yfir þeim.

Vilda Kvist er fædd í Gautaborg árið 1979. Hún býr og starfar í Stokkhólmi. Hún útskrifaðist með MA gráðu frá Konstfack í Stokkhólmi árið 2014. Í myndlist sinni fæst hún, með ákveðinni óvirðingu og umhyggju, við allt á milli valdaskiptingar, haturs í garð samkynhneigðra og sögufölsunar til þess sem hún elskar líkt og sólsetra, fagurfræði, vandræðalegrar tónlistar og það að nafngreina hetjur sínar. Bæði þær sem hafa verið viðteknar og þær sem munu aldrei verða það. Þetta er tilfinningaleg kennsla um völd.

Sýningastjóri: Kolbrún Ýr Einarsdóttir

Texti: Aldís Snorradóttir