Sequences IX – Í alvöru
Sýning b)
Guðný Guðmundsdóttir, Kristinn G. Harðarsson, Arna Ýr Jónsdóttir, Karlotta Blöndal, Amanda Riffo, Margrét H. Sesseljudóttir, Miruna Dragan, Davíð Örn Halldórsson, Anna Þorvaldsdóttir
12.10.2019–24.11.2019
Opnun: 12. október 2019 kl. 17:00-20:00

Laugardaginn 12. október 2019 opnar sýning b) í Nýlistasafninu sem hluti af Sequences IX – Í alvöru. Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru: Guðný Guðmundsdóttir, Kristinn G. Harðarsson, Arna Ýr Jónsdóttir, Karlotta Blöndal, Amanda Riffo, Margrét H. Sesseljudóttir, Miruna Dragan, Davíð Örn Halldórsson, Anna Þorvaldsdóttir

Sequences real time art festival verður haldin í níunda sinn dagana 11.–20. október. Sýningarstjórar að þessu sinni eru Hildigunnur Birgisdóttir og Ingólfur Arnarsson. 34 listamenn taka þátt í hátíðinni og spannar framlag þeirra vítt svið; tónlist, texta, kvikmyndir, innsetningar, teikningar og skúlptúra svo eitthvað sé nefnt.


Í texta sýningarstjóra segir meðal annars:

„Við gátum ekki einskorðað okkur við rauntímalist eða tímatengda miðla sem er jú upphaflegur ásetningur hátíðarinnar. Áhuga- og þekkingarsvið okkar er vítt og brotakennt en ekki sértækt á því sviði. Við völdum þá leið að kljúfa hugtakið raun-tíma og kanna afstæði þessara tveggja hugtaka með virkni verka sem unnin eru í hina ólíkustu miðla. Við hefjum samtal við sýningagesti með vali á þeim verkum og viðfangsefnum sem hér er stefnt saman og víxlverkun og margvíslegri tengingu merkingarsviða þeirra.“

„Við höfum valið fjóra ólíka einstaklinga til að leggja orð í belg og bregðast á ólíkan hátt við grunnhugmynd okkar. Sýningagestir bæta síðan við sinni sýn og upplifun. Þetta er opinn tilgátu viðburður um tíma okkar og stað í tilverunni.“

Hér má lesa texta sýningarstjóra: https://sequences.is/I-ALVORU


Heiðurslistamaður hátíðarinnar er Kristinn Guðbrandur Harðarson, en hann hefur verið virkur í íslensku myndlistarlífi um áratuga skeið. Í verkum Kristins á sér stað persónuleg og ljóðræn úrvinnsla á hans nánasta umhverfi þar sem hann notast við fjölbreyttar miðlunarleiðir, texta, útsaum, skúlptúra, veggmálverk, teiknimyndir og gjörninga svo fátt eitt sé nefnt.
Einkasýning á nýjum verkum Kristins opnar í Ásmundarsal föstudaginn 11. október kl. 17.00. Hún er jafnframt fyrsta opnun hátíðarinnar.

Formleg dagskrá hátíðarinnar fer fram í sjö sýningarrýmum í Reykjavík og vegleg utandagskrá verður í boði. Dagskrá og nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar, www.sequences.is.