Nýlistasafnið býður ykkur innilega velkomin á opnun Rolling Line, sýningu sem spannar rúman áratug af verkum og listheimildum eftir myndlistarmanninn Ólaf Lárusson (1951 – 2014).

Sýningin opnar laugardaginn 18. mars milli klukkan 14 – 18 og mun jafnframt vígja nýtt rými Nýlistasafnsins við höfnina, í Marshallhúsinu að Grandagarði 20, 101 Reykjavík.

Sýningin Rolling Line spannar rúman áratug af verkum og listheimildum eftir myndlistarmanninn Ólaf Lárusson (1951 – 2014). Ólafur var afkastamikill listamaður og tók virkan þátt í að móta áherslur innan myndlistarsenunnar á Íslandi sem stóð á ákveðnum tímamótum um miðjan 8. áratuginn.

Ólafur var í hópi þeirra myndlistarnema sem sögðu sig úr námi við Myndlista – og handíðaskóla Íslands árið 1974 sökum stöðnunar og hélt út til Hollands í kjölfarið þar sem hann stundaði frekara nám við hinn virta Atelier ’63 í Haarlem. Ólafur útskrifaðist úr skólanum árið 1976 og flutti heim til Íslands sama ár þar sem honum var boðið að kenna kvikmyndagerð við Deild í mótun, nýja deild innan MHÍ, sem seinna var nefnd Nýlistadeild.


Ólafur var einn af stofnaðilum Nýlistasafnsins og sinnti nefndarstörfum af miklum móð fyrstu ár safnsins sem þá hafði aðsetur á Vatnsstígnum. Hann var einn af síðustu listamönnunum sem tekinn var inn í SÚM hópinn og var stórtækur í framgangi gjörningalistar á Íslandi.

Þetta er í fyrsta sinn sem verk Ólafs eru sýnd saman í viðleitni til að draga upp heildræna mynd á afkastamestu árum listamannsins. Á sýningunni má einnig finna verk eftir Ólaf í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands og Safnasafninu ásamt ótal verkum í einkaeign, frá söfnurum, vinum og vandamönnum Ólafs.

Samhliða sýningunni verður gefin út vegleg bók í tilefni þeirrar stóru gjafar sem Nýlistasafninu barst frá fjölskyldu Ólafs og inniheldur mikið magn efnis frá vinnustofu listamannsins.

Á sýningunni eru settar fram upptökur og heimildir af Regnboga I, gjörningi sem Ólafur flutti í gallerí SÚM árið 1978, sem voru taldar týndar framan af. Einnig má sjá aðra útfærslu af verkinu sem að Ólafur sýndi fyrir framan alþjóð í Ríkissjónvarpinu árið 1980 en það var í fyrsta sinn sem gjörningur var framinn í sjónvarpi á Íslandi.


Listaverk Ólafs hrífa okkur með sér á vit ævintýra og sagna, upp á heiði og út í móa. Ólafur var blátt áfram í list sinni og leitaðist við að brjóta hina hefðbundnu miðlaumgjörð svo að verkin sjálf fengju vængi. Svo virðist sem málverkið hafi alla tíð verið honum eðlislægt, enda þótt hann hafi varið stórum hluta starfsferilsins í að spyrna gegn þeirri hvöt. Listaverkin sem endurspegla þá glímu eru því gjarnan hvað sérstæðust. Þau einkennast af tilraunamennsku og leikgleði og birtast okkur líkt og hending, fugl sem þýtur hjá og fær okkur til að staldra við.

Útgáfuhóf bókarinnar verður kynnt síðar en þá verður ekki síður tilefni til að fagna!

Við vonum að með sýningunni Rolling Line og væntanlegri útgáfu á verkum og heimildum, sem spanna þó aðeins áratug af framlagi Ólafs til listarinnar, hafi þessum góða listamanni og félaga verið gerð betri skil.

Sýningarstjórar Rolling Line eru Þorgerður Ólafsdóttir & Becky Forsythe. Sýningarhönnunin er gerð í samvinnu með Thomas Pausz.

Sýningin hlaut styrki frá Safnasjóði og Myndlistarsjóði.