Nýlistasafnið býður ykkur velkomin á sýninguna Nothing Really Matters (except me), með nýjum verkum eftir myndlistarmanninn Simon Buckley (UK).

Símon 1: Ef að þú færð misvísandi skilaboð, þá er það af því að tilfinningar mínar eru blendnar. Fyrir þér er tilhögun hluta og lygi það sama… og ég meina ekki bara hugmyndafræðilega, einnig tilfinningalega! Þú stelur sársauka annarra og hleður honum ofaná þinn eiginn þangað til að þú veist ekki lengur hvaða tilfinningar tilheyra þér og hverjar öðrum.

Símon 2: Það er ég. Það er ég sjálfur sem ég hef aldrei hitt, og andlit mitt er límt í djúpin. Horfðu á sjálfan þig, ég gerði þetta fyrir þig.

Fyrir sýningu sína í Núllinu teiknaði Simon á veggi rýmisins. Teikningarnar sýna pyntingar líkt og á miðöldum þar sem kvalarinn beitir villimannslegum aðferðum til að draga játningar upp úr fórnarlambi sínu. Í kringum þessar sögupersónur spinnst tveggja manna samtal á milli Símon 1 og Símon 2; rökræður, togstreita og ruglingur um hversdagsleikann og tilgang lífsins, akademískt þvaður og frumspekilegar vangaveltur.

Í gegnum þessar frumspekilegu samræður og sjálfsögu reyna þeir til þrautar að finna tilgang veru sinnar, greina vægi og þörfina fyrir verk sín og eigin tilveru. Samtalið milli Simon 1 og 2 er hvergi skýrt. Þar rúmast bæði innri átök listamannsins, þar sem hann veltir fyrir sér afleiðingum þess að sýna verk sín áhorfendum, og samtal hans við þig (því þegar upp er staðið, gerði hann þetta bara fyrir þig).

Simon Buckley (1984, UK), lauk meistaranámi í myndlist frá Glasgow School of Art árið 2013 og útskrifaðist með meistaragráðu í heimspeki frá Háskólanum í Bristol árið 2010. Nýlegar sýningar og verkefni hans eru ‘All You Need’ í Riverside Space í Bern, ‘Village of Hope Trees’ í Part 1, Köln og ‘Paul Scholes (A Design For Life)’ í The Tip, Frankfurt am Main og ‘Blasted’, sem var hluti af gjörningadagskrá ‘Words Don’t Come Easy’ í Harbinger í Reykjavík 2014. Þetta er fyrsta einkasýning listamannsins á Íslandi.

Núllið er staðsett í Bankastræti 0, 101 Reykjavík
Opið fimmtudaga – sunnudaga 14 – 18 og eftir samkomulagi