Nokkur uppáhalds verk
10.01.2020 – 23.02.2020

Opnun 10.01.2020 kl. 17.00–19.00

Douwe Jan Bakker, G.Erla – Guðrún Erla Geirsdóttir, Mihael Milunović, Rúrí

Safnkostur Nýlistasafnsins er fyrir löngu orðinn goðsagnakenndur. Það fer eftir því hvern þú spyrð hvort í safneigninni megi helst finna perlur íslenskrar samtímalistar, skömmustuleg bernskubrek ástsælustu samtímalistamanna þjóðarinnar eða plássfrek og misgóð verk sem listamenn hirtu ekki um að sækja að sýningum loknum. En hverjum þykir sinn fugl fagur og Nýló stendur vörð um og miðlar þessum menningararfi, hvað svo sem öðrum finnst.


Þegar sýningarstjórar heimsækja safngeymslurnar í þeim tilgangi og skoða verk sem þeir hafa áhuga á að hafa með í sýningu þá eru viðbrögðin stundum: „Ó, er þetta svona?“ Ímyndin sem þau voru með af verkinu í huganum og hvernig það tengist sýningarhugmynd þeirra helst ekki í hendur við upplifun af verkinu í eigin persónu.

En hvað með öll þessi verk? Sum þeirra eru alveg frábær en fá aldrei að fara lengra en úr geymslunni inn í millirými og til baka. Ýmist vegna stærðar, því verkið er minna eða stærra en fólk hafði ímyndað sér eða þá vegna umstangs til að gera það sýningarhæft, til dæmis innrömmun, forvarsla eða flókinn flutningur. Oft eru þetta líka sömu verkin sem sífellt er beðið um að sjá og valda síðan sýningarstjórum vonbrigðum og er á endanum hafnað. Maður tengist þessum verkum óneitanlega ákveðnum böndum.


Á þessari sýningu fá nokkur þessara verka frelsi til að vera til sýnis almenningi án pressu um að passa inn í eitthvað níðþungt curatorial concept, án þess að vera látin leika hlutverk í sögu safneignar Nýlistasafnsins og án þess að vera þvinguð í samtal við önnur verk á sýningunni. Þó er ekki þar með sagt að samtalið geti ekki átt sér stað þegar áhorfandi setur þau í sitt eigið samhengi en fyrst og fremst eru verkin hér til að standa á eigin fótum á eigin forsendum og eini hugmyndaramminn er að vera eitt af uppáhaldsverkum núverandi safneignarfulltrúa í safneigninni.

Sýningarstjóri: Birkir Karlsson

Mynd: Mihael Milunovic – Hluti af Mobile (War, Plague, Hunger, Hate, Death), 1999