Ragna Róbertsdóttir
Milli fjalls og fjöru / Between mountain and tide
24.03.18 – 19.05.18

Nýlistasafnið kynnir með stolti sýningu Rögnu Róbertsdóttur, Milli fjalls og fjöru sem opnar laugardaginn 24. mars næstkomandi, kl. 16:00.

Ferill Rögnu spannar yfir 30 ár af virku sýningarhaldi en fyrsta einkasýning hennar var í Nýlistasafninu árið 1986 þegar safnið var til húsa að Vatnsstíg 3b í miðbænum.

Verk Rögnu eru afrakstur áratuga langs áhuga listamannsins á eiginleikum íslenskrar náttúru og hugleiðinga um form og efni umhverfisins, því manngerða og hinu náttúrulega.


Sýningin Milli fjalls og fjöru, er í anda yfirlitssýningar en dregur samtímis fram þau sjónarmið sem eru nú ríkjandi í verkum Rögnu. Sýningin nær því að hnýta saman fortíð og það sem er að gerast á vinnustofu hennar í dag og dregur þannig fram ákveðna hringrás.

Samhliða sýningunni verður gefin út vegleg bók um verk Rögnu frá bókaforlaginu DISTANZ í Berlín, sem gefur stærri og heildstæða mynd af verkum hennar frá 9. áratugnum til dagsins í dag.

Sýningarstjórar eru Þorgerður Ólafsdóttir & Becky Forsythe
Hönnun sýningar er í umsjón Ásmundar Hrafns Sturlusonar


Ragna Róbertsdóttir (f. 1945) býr og starfar í Reykjavík og Berlín. Verk hennar hafa verið sýnd víða í Evrópu, Norður Ameríku, Kína og Ástralíu.

Á meðal nýlegra sýninga og verkefna Rögnu eru Staðir / Places í Arnarfirði (2016), Four Parts Divided, i8 (2016), Seascape, Listasafnid á Akureyri (2013), Firðir/Fjords, ásamt Hörpu Árnadóttur, Bíldudalur í sýningastjórn Markúsar Þórs Andréssonar (2012), Mindscape, Hamish Morrison Galerie, Berlín (2010), sýningar í Bury Art Gallery Museum + Archives, Bury, Englandi (2008), New Bedford Art Museum, Massachusetts, USA (2005), Chinese European Art Center, Xiamen, Kína (2004), Lisatsafni Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum (2004), Listasafni Íslands (2003) og Kunstmuseum Bern, Sviss (1991).