Infinite Next, sem útleggst sem hið óendanlega framundan, er samsýning Önnu Líndal, Amy Howden-Chapman, Bjarka Bragasonar, Bryndísar Snæbjörnsdóttur & Mark Wilson, Hildigunnar Birgisdóttur og Pilvi Takala.

Hið óendanlega er án takmarka, það er endalaust rými, stærð eða samhengi og ógerlegt er að mæla eða ná yfirsýn yfir það.

Verkin á sýningunni kljást á ólíka máta við kerfi sem öll samfélög eru að glíma við; hagkerfi síð-kapitalismans, hnignun vistkerfa, tilraunir mannsins til þess að hafa áhrif á virkni þeirra, þekkingarframleiðslu, söfnun upplýsinga, birtingarmyndir og áhrif mannsins í umhverfinu. Frá því að landbúnaður hófst, og með iðnbyltingunni sem átti sér stað á milli 1760 og 1820-40, hefur maðurinn orðið að jarðfræðilegu afli, áhrif menningarinnar á jörðina tóku að marka dýpri spor og valda breytingu á náttúrulegum ferlum.

Í dag birtast áhrifin í loftslagsbreytingum, sem þó er illsýnilegt fyrirbæri í heild sinni, heldur birtist það brotakennt í öllum hlutum: sem ójafnvægi í lífríki, hitabylgjur og rigning, sem breyting á öllum aðstæðum og framtíðarhorfum mannkyns. Nýlega í veraldarsögunni hefur menningunni tekist að framleiða afurðir sem halda áfram að hafa áhrif tugþúsundum ára eftir að framleiðsla þeirra eða notkun átti sér stað. Þannig munu leifar atómsprengja dreifast um langa framtíð og jöklar bráðna árþúsundum eftir að slökkt hefur verið á öllum verksmiðjum heimsins. Jarðfræðilegur tímaskali hefur skarast þeim mennska í fyrsta sinn. Framundan eru óendanleg tengsl á milli ferla sem við fyrstu sýn eru fjarskyldir; samfélög fortíðarinnar og samtímans smitast inn í framtíð sem einstaklingar reyna að ímynda sér og staðsetja sig í, á meðan pólitísk valdakerfi basla við að mynda sér sameiginlega framtíðarsýn.


Amy Howden-Chapman er listamaður og rithöfundur, fædd og uppalin á Nýja Sjálandi og býr og starfar í Bandaríkjunum. Hún hefur gráðu í listasögu og lauk MA í ritlist frá háskólanum í Victoria, Wellington á Nýja Sjálandi. Hún hlaut MFA gráðu frá California Institute of the Arts árið 2011. Í listrænum rannsóknum sínum nýtir Howden-Chapman gjörningalist, hreyfimyndir og prent til að varpa ljósi á samband og átök hugmyndafræði kapítalismans og umhverfisverndunar. Hún ásamt Abby Cunnane stofnuðu The Distance Plan, verkefni sem sameinar listamenn, rithöfunda og hönnuði til að virkja samræður innan listheimsins um loftlagsbreytingar. The Distance Plan sér einnig um útgáfur s.s. bókverk listamanna og árlegt fréttabréf.

Anna Líndal (1957) útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1985, lauk framhaldsnámi frá The Slade School of Fine Art í London árið 1990 og MA í Listrannsóknum frá St Lucas University College of Art & Design, Antwerpen árið 2012. Anna Líndal hefur tekið þátt í fjölda innlendra og erlendra sýninga m.a. Kwangju Biennalnum, Man + Space í S-Kóreu árið 2000 í sýningarstjórn René Block. Istanbúl tvíæringnum árið 1997, On life, beauty, translation and other difficulties þar sem sýningarstjóri var Rosa Martinez og alþjóðlegri myndlistarsýningu Listahátíðar í Reykjavík árin 2005 og 2008. Síðustu einkasýningar Önnu Líndal eru Kortlagning hverfulleikans í Listasafni ASÍ og Samhengissafnið / Línur í Harbinger. Anna Líndal var prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands frá árinu 2000 – 2009 og hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir fagið.

Bjarki Bragason (f. 1983) lærði myndlist við Listaháskóla Íslands, Universität der Künste Berlin og hlaut meistaragráðu frá CalArts í Los Angeles árið 2010. Í verkum sínum kannar Bjarki oft söguna, tímann, birtingarmyndir pólitískrar sögu í gegnum brot og rústir bygginga og umhverfis og ímyndaframleiðslu. Nýlegar einkasýningar eru Past Understandings og Desire Ruin í Kunsthistorisches Museum og Naturhistorisches Museum í Vín. Á döfinni er einkasýning hans The Sea við Schildt Stofnunina og Pro Artibus í Tammisaari, Finnlandi. Í sumar og haust mun hann taka þátt í samsýningum í Human Resources, Los Angeles og St. Paul St. Gallery í Auckland University of Technology á Nýja Sjálandi og í samsýningunni Ríki – flóra, fána, fabúla í Listasafni Reykjavíkur. Bjarki hefur stýrt sýningarverkefnum og er stjórnarformaður Myndlistaskólans í Reykjavík, meðlimur í Evrópska Menningarþinginu og stundakennari við Listaháskóla Íslands.


Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson búa í Bretlandi og á Íslandi. Þau vinna saman að myndlistaraverkum sínum sem oftast eru samfélags- og rannsóknartengd verkefni sem kanna þætti í sögu, menningu og umhverfi jafnt hjá mönnum sem dýrum. Listaverk þeirra hafa verið sýnd á alþjóðavettvangi og sömuleiðis hafa þau flutt erindi á lykil ráðstefnum innan sins sérsviðs víðsvegar um heiminn. Eins og er vinna þau með Anchorage Safninu í Alaska að tveggja ára verkefni um norðurslóðir. Ennfremur vinna þau að þverfaglegu verkefni um ‘Plant Blindness’ sem stutt er af Sænska Vísindaráðinu.
Mark er prófessor í myndlist hjá the University of Cumbria and Bryndís er gestaprófessor í Malmö Art Academy og Listaháskólanum.

Hildigunnur Birgisdóttir (1980) útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003. Hildigunnur hefur m.a. sýnt í Listasafni Reykjavíkur, i8 Gallery, Kling og Bang, Hverfisgalleríi, Nýló og nú síðast í ANNAELLEGALLERY Stokkhólmi. Hún tók þátt í verkefninu Ragnar Kjartansson and Friends í TBA21 í Vínarborg sumarið 2014 og í PS1 í New York 2013. Hildigunnur hefur sinnt hinum ýmsu störfum innan íslenskrar myndlistarsenu, svo sem framkvæmdarstjórn Skaftfells, setið í stjórn SÍM, KÍM og Nýlistasafnsins. Hildigunnur hefur undanfarin ár einnig fengist við kennslu.

Pilvi Takala er fædd 1981 í Helsinki, Finnlandi), býr og starfar í Helsinki og Istanbúl. Takala lauk meistaranámi í myndlist frá Listaháskólanum í Finnlandi og var gestalistamaður í Rijksakademie í Hollandi. Nýlegar einkasýningar hennar hafa meðal annars verið í Bonniers Konsthall, Stokkhólmi; Site Gallery, Sheffield; Künstlerhaus Bremen; Kunsthalle Erfurt; Kiasma Museum of Contemporary Art, Helsinki; Turku Art Museum; Kunsthalle Lissabon; og Sorlandets Kunstmuseum, Noregi. Verk hennar hafa einnig verið sýnd í MoMA PS1 og New Museum, New York; Palais de Tokyo, París; S.M.A.K., Ghent; Kunsthalle Basel; De Hallen Haarlem; Wiels, Brussel; og á 4. Moskvu bíennalnum.