Karl Ómarsson

Ómar af kynngimagnaðri fjarveru

16.08.-29.09.2019

Opnun 16. ágúst kl. 17-19

Hlutirnir sem blasa við virðast ekki vera neitt. Bara klessur eða blettir. Samhengislausir textar, brot eða leifar af óljósum minningum. Eitthvað sem fingurgómarnir hafa komist í snertingu við áður, handleikið og skoðað en virðast ekki eiga sér neina stoð lengur.

Ómar af kynngimagnaðri fjarveru, einkasýning Karls Ómarssonar í Nýlistasafninu, virkar sem leiðarljós og afvegur í senn.


Verkin fela í sér kunnuglega eiginleika; form, efni, línur, orð og liti, fyrirbæri sem við höfum áður litið auga, snert, hlustað á og loks fært í orð. Á sama tíma leysa yfirborð verkanna upp fyrirfram gefnar hugmyndir, fjarlægja samhengi og losa um þær upplýsingar sem hafa safnast saman í huganum yfir lengri tíma. Verkin ölva fremur en upplýsa og opna þannig á annan lestur — Leið út í bláinn. Stað þar sem fyrirmyndir og hliðstæður hafa verið fjarlægðar eða afmyndaðar. Eftir stendur rými til ímyndunar, aftengingar og upprifjunar þar sem léttilega er skautað framhjá því sjálfsagða.