Nýlistasafnið býður ykkur velkomin á opnun sýningarinnar Being Boring, föstudaginn 8. apríl kl. 17 í Núllinu, Bankastræti 0, 101 Reykjavík.

Being Boring er sýning um leiða; tilfinningalegt ástand sem er svo kunnuglegt og virðist svo lítils virði að okkur hættir til að líta fram hjá því án frekari umhugsunar. Sýningin er í umsjón sýningarstjóranna Gemma Lloyd og Gareth Bell-Jones sem hafa sameinað listamenn sem rannsaka þetta flókna tilfinningalega ástand og kanna ólíkar nálganir og viðbrögð við leiða.

Listamennirnir á sýningunni eru;
John Baldessari, Phil Coy, Lucy Clout, Emma Hart, William Hunt, Sam Porritt og Peter Wächtler.

Á opnuninni munu þrír nemendur úr BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands, endurflytja verk John Baldessari, I will not make any more boring art. Verkið var upprunalega gert fyrir Nova Scotia College of Art & Design í Halifax, Kanada árið 1971. Þar gaf Baldessari sjálfboðaliðum úr hópi nemenda fyrirmæli um að skrifa ofangreinda setningu upp úr stílabók sinni á veggi gallerísins allan þann tíma sem sýningin var opin. Endurgerð útgáfa verksins heldur tryggð við fyrirmæli listamannsins, þó 45 ára gömul séu, og bætt verður við eftir því sem á sýninguna líður.

Samhliða verki Baldessari er úrval verka sem eiga það sameiginlegt að kanna ólíkar nálganir og viðbrögð við leiða svo úr verður heildarrannsókn á þessu flókna tilfinningalega ástandi. Í verki Phil Coy, as far as i know, safnaði listamaðurinn saman brotum af Youtube, Twitter, Vine og Gif, sem sýna upptekið fólk í farsímum á leið til eða frá vinnu. Þessi nútímaútgáfa af lestarsenu Faranheit 451 (1966) dregur fram persónuleg einkenni, veikleika og afþreyingarleiðir fólks í almenningssamgöngum. Með fyrringarkenningu sinni heldur Marx því fram að hafi verkamenn enga stjórn á vinnu sinni missi þeir óhjákvæmilega stjórn á lífi sínu og sjálfi. Vinnan verður að merkingarlausri athöfn sem er lítils eða einskis virði.


Safn keramikverka Emmu Hart, Shit Sandwich, endurspeglar reynslu hennar af einhæfri vinnu og stöðugri vanlíðan sem fylgir heilalausum útfyllingum á gæðakönnunum og minnislistum. Í verki sínu From Our Own Correspondent kannar Lucy Clout sífelldar kröfur um skil í sólarhringsheimi fréttaveitanna. Með myndbrotum úr ónefndum hótelherbergjum, sem gera mörkin milli heimilis og vinnu óskýr, beinir hún sjónum að löngum og einmanalegum stundum milli fréttatíma.

Með tilkomu reglulegs vinnutíma fylgdi tilkoma skilgreinds frítíma. Í myndverki sínu skoðar William Hunt dægradvalir sem notaðar eru til að fylla þennan frítíma. Með tilvísun í hugmyndir Camus um flótta kannar Hunt úrvinnslu bældra eða ófullnægðra girnda hjá áhugamönnum um siglingakeppnir módelbáta.

Stjarnan í verki Peter Wächtler er teiknimyndarotta sem endurtekur sig í sífellu. Talsetningin er samsett úr brotakenndum staðhæfingum og myndar aldrei samfellda sögu. Endurtekningar á kunnuglegum einingum hefur alltaf verið sparnaðarleið í teiknimyndagerð, yfirleitt hulin til þess að skemma ekki fyrir tilfinningu áhorfandans fyrir línulegri framrás sögunnar. Rotta Wächtler endurtekur sig oflátungslega. Með endurtekningum sem ofbjóða breytast örlög í skrípalæti og þannig er hulunni svipt af hryllingi hins stjórnaða heims.

Einhæfar endurtekningar koma einnig fyrir í verkum Sam Porritt, sem síðustu ár hefur unnið teikningar með lykkjum í aðalhlutverki. Teikningarnar eru nú yfir 150 talsins en nokkrar þeirra eru sýndar hér. Líta má á línurnar í teikningunum sem einstaklinga, samfélög eða jafnvel mannkynið í heild, á leið sinni um tíma og rúm.

Gareth Bell-Jones (f. 1982 í Durham, Bretlandi) er sjálfstætt starfandi sýningastjóri og rithöfundur, búsettur í London. Hann starfar sem sýningastjóri og framkvæmdastjóri Flat Time House, sem er gallerí og safn á fyrrum heimili listamannsins John Latham. Á árunum 2010-2014 starfaði hann sem dagskrárstjóri hjá Wysing Arts Centre í Cambridge, þar sem hann skipulagði listamannabúsetu, sýningar, námskeið, viðburði, útgáfur og árlega tónlistarhátíð.

Gemma Lloyd (f. 1981 í Ipswich, Bretlandi) er sýningastjóri, búsett í London. Síðastliðinn áratug hefur hún unnið að sýningagerð og við útgáfu og skipulag listamannaheimsókna og opinberra viðburða. Hún var áður aðstoðarframkvæmdastjóri PEER í London. Meðal verkefna hennar nú er undirbúningur sýningar fyrir Thames Tideway Tunnel, sýningar undir yfirskriftinni The Sea fyrir Ferens Art Gallery í Hull 2017, gagnasöfun fyrir bresku listamennina Alison Wilding og Tess Jaray og enskur prófarkalestur fyrir miðstöð samtímalistar í Vilinius.

Sýningin Being Boring í Núllinu er fyrsti hluti viðamikils sýningaverkefnsins; viðburða, texta, sýninga og hugleiðinga sýningarstjóranna Gareth Bell-Jones og Gemmu Lloyd, þar sem þau rannsaka hið velþekkta en þó vanmetna fyrirbæri leiða.


John Baldessari (f. 1931 í National City í Kaliforníu) býr og starfar í Santa Monica í Kaliforníu. Verk hans hafa verið sýnd á yfir 200 einkasýningum og 1000 samsýningum í Bandaríkjunum og í Evrópu. Meðal verka hans eru bækur, myndbönd, kvikmyndir, skilti og opinber listaverk. Baldessari telst meðal upphafsmanna konseptlistarinnar og er þekktur fyrir áhrif sín á yngri listamenn sem hann hefur kennt við California Institute of the Arts og UCLA. baldessari.net mariangoodman.com spruethmagers.com

Lucy Clout (f. 1980 í Leeds í Bretlandi) býr og starfar í London. Sýning á verkum hennar undir yfirskriftinni Warm Bath hefur m.a. verið sett upp í Limoncello í London; Galleri Box í Gautaborg; Jerwood Space, London og CCA í Glasgow. Í verkum sínum beinir hún sjónum sínum að upplifun áhorfandans með áherslu á samskiptaleiðir milli flytjenda og áhorfenda í smáu sem stóru samhengi. limoncellogallery.co.uk

Phil Coy (f. 1971 í Gloucester, Bretlandi) býr og starfar í London. Sýning með verkum hans, undir yfirskriftinni The Green Ray, var nýlega opnuð í Wilkinson Gallery, London, auk þess sem verkið Cally Colour Chart var sett upp til frambúðar við Caledonian Road í London. Í verkum sínum notar Coy ólíka miðla til þess að blanda róttækum hugtökum frá miðri 20. öldinni við tungumál og arkitektúr nútímans og menningu alþjóðaviðskipta. philcoy.info

Emma Hart (f. 1974 í London) býr og starfar í London. Hún hlaut nýverið Max Mara Art Prize for Women. Verðlaunin eru veitt í samstarfi við Whitechapel Gallery í London, þar sem verk hennar verða sýnd á næsta ári, auk Collezione Maramotti á Ítalíu. Árið 2015 hlaut hún Paul Hamlyn Foundation verðlaunin fyrir myndlist. Samkvæmt Hart ,,býður keramík upp á leið til að ,,spilla” og ,,óhreinka” myndir og kreista úr þeim meira líf.” emmahart.info

William Hunt (f.1977 í London) býr og starfar í Düsseldorf. Sjálfur kynnir hann sig sem sambland af hetjulegri aðalpersónu og heimskulegu hrekkjusvíni. Með sýningum, kvikmyndum og ljósmyndum sínum dregur hann áhorfendur inn í spennuþrungnið ástand líkamlegrar áreynslu og vélrænnar nákvæmni sem kallar fram gríðarlegan tilfinningaskala; allt frá sjúklegri sælu og sársaukafullum húmor til depurðar og ljóðrænu. Nýlega hafa verk Hunt m.a. verið sýnd í Gallery Lejeune, London, (2016); Crawford Art Gallery, Cork; Kunstmuseum Stuttgart; Ibid Projects, Los Angeles og Rotwand, Zurich (2015). Ibidgallery.com rotwandgallery.com petrarinckgalerie.de

Sam Porritt (f. 1979 í London) býr og starfar í Zurich. Hann grefur djúpt í enska tungu eftir tvíræðni í merkingu og til þess að sjóða saman flóknar tilvísanir. Með titlunum á teikningum og skúlptúrum færir hann verkunum annað eða umbreytt líf. Meðal nýlegra einkasýninga Porritt eru Falling Gets Me Down í Naming Rights, London (2015) og The More You Look, The More You Look í 100 Plus, Zürich. Auk þess er hann einn listamanna í samsýningunni L’Hospice des Mille-Cuisses í Centre d’ Art Neuchatel í Sviss. samporritt.com

Peter Wächtler (f. 1979 í Hanover, Þýskalandi) býr og starfar í Brussel. Fyrsta einkasýning hans í Bandaríkunum, Secrets of a Trumpet, var opnuð í Renaissance Society í Chicago fyrr á þessu ári og framundan eru sýningar í Chisenhale Gallery, London og Kiosk, Ghent (2016). Kvikmyndir, textar, skúlptúrar og teikningar Wächtler eru margbrotnar samsetningar sem draga fram hverfulleika tilverunnar. Verkin hafa viðkvæmnislegan og þungan undirtón með tilvísunum í spennusögur og lélegar kvikmyndir, harmrænu og svarta rómantík. dependance.be