OPIÐ FYRIR UMSÓKNIR / umsóknarfrestur er til 14. júní 2015

UPPLÝSINGAR

Nýlistasafnið eða Nýló er listamannarekið sýningarrými og safn, vettvangur uppákoma, umræðna og gjörninga. Nýló er rekið án hagnaðarsjónarmiða og hefur lengi verið miðstöð nýrra strauma og tilrauna í íslenskri myndlist og hafa margar sýningar í Nýló markað tímamót í íslenskri listasögu.

Ár hvert stendur Nýló fyrir öflugri sýningadagskrá auk þess að safna og varðveita listaverk og heimildir sem tengjast frumkvöðlastarfi innan íslenskrar myndlistar.

Stjórn Nýlistasafnsins hefur ákveðið að taka á móti umsóknum um sýningar til 14. júní 2015.

Allar umsóknir skulu vera vandaðar og vel mótaðar. Val stjórnar miðast við sýningarstefnu og áherslur hverju sinni og áskilur stjórn sér rétt til þess að velja og hafna umsóknum án allra vandkvæða eða frekari útskýringa.

Umsækjendur eru beðnir um að gera grein fyrir í upphafi hvaða rými viðkomandi vill vinna með. Stjórn Nýló ákveður tíma valinna sýninga en umsækjendur eru hvattir til nefna ákjósanlega tímasetningu fyrir verkefni sín.

Stjórn og starfsfólk Nýlistasafnsins veitir aðstoð er varðar listrænar ákvarðanir og uppsetningu, sér um hönnun og prentun sýningarskrár ásamt kynningu og opnunarhóf valinna sýninga.

Annað framlag Nýló er samkomuatriði hverju sinni. Umsækjendur eru því hvattir til þess að sækja um fjárstyrki fyrir sýningar sínar annarsstaðar frá.

Umsóknir sem berast eftir auglýstan umsóknarfrest verða ekki teknar til athugunar.

SÝNINGARÝMI

Sýningar 2015-2016
Núllið er staðsett að Bankastræti Núll, 101 Reykjavík. Sýningarrýmið er í fyrrum kvennasalerni og aðstöðu sem staðsett er neðanjarðar, undir Bankastræti, og hefur verið friðað af Minjavernd Íslands. Rýminu er skipt upp í tvö hólf, vinstra megin er lítið hvítt sýningarrými en hægra megin standa salernisbásar sem eru nýtanlegir til sýningarhalds. Umsækjendur eru hvattir til að vinna með bæði rýmin.

Sýningar 2016
Verkefnarými Nýlistasafnsins er staðsett í gamla Breiðholtsbakaríi, Völvufelli, efra Breiðholti og er staðsett fyrir ofan safneign og skrifstofurými safnsins.

Lifandi Safneign er sýningarrými safneignar og er staðsett í Völvufelli, efra Breiðholt, inn af skrifstofurými safnsins. Sýningarými safneignar er ætlað að varpa ljósi á safneign Nýló eða heimildarsöfnin; arkíf um gjörninga eða arkíf um listamannarekin rými. Allar sýningartillögur fyrir þetta rými skulu taka mið af safneign eða heimildarsöfnum safnsins og/eða sögu þess.

Til að bóka heimsókn í safneign Nýlistasafnsins skal hafa samband við archive(at)nylo.is

Upplýsingar um safneign Nýlistasafnsins má nálgast á sarpur.is

Sjá grunnplön hér:

NullidBankastraeti0

ProjectSpace_Volvufell

LivingCollection_Volvufell

LEIÐBEININGAR FYRIR UMSÆKJENDUR

Þegar þú undirbýrð umsókn þína er gott að hafa stefnu og sögu Nýlistasafnsins í huga. Einnig er gott að taka mið af gólfplani þess sýningarrýmis sem þú hyggst sækja um.

Umsóknum skal skilað inn fyrir miðnætti, 14. júní með tölvupósti. Ekki verður tekið við útprentuðum umsóknum.

Umsóknir skulu innihalda eftirfarandi gögn:
1. Sýningartillögu. Tillagan skal einnig innihalda upplýsingar um tæknileg- og uppsetningarleg atriði, hámark 500 orð
2. Yfirlýsingu myndlistarmanns/hóps – artist statement, hámark 300 orð
3. Ferilskrá
4. Kostnaðaráætlun
5. Myndir af fyrri verkum og /eða skissur (hámark 10). Allar myndir skulu vera vel merktar upplýsingum um verkið: stærð, miðill, titil og ár.

Sýningartillaga, yfirlýsing listamanns, ferilskrá, kostnaðaráætlun og listi/upplýsingar um myndir skulu vera hjálögð sem PDF- skjal í tölvupósti. Ljósmyndum af verkum má skila í sér PDF skjali.

Skjalið skal ekki vera stærra en 8 MB. Umsóknum í formi word skjala eða í tölvupósti án viðhengja verða ekki teknar til greina.

Fyrir tímatengd verk, myndbands eða hljóðverk skal setja inn hlekk sem leiðir beint inn á rétta slóð tengda VIMEO, youtube o.s.frv. Vinsamlegast sendið ekki myndbönd eða hljóðverk beint í tölvupósti; aðeins hlekki.

Umsóknir og allt efni sem þeim viðkemur, utan tímatengdra verka, skal vera sent í einum tölvupósti.

Vinsamlegast sendið allar umsóknir á applications(at)nylo.is