17990450_1216630591793423_2442318970655347963_o

Yfirstandandi 22.apr..2017 – 2.Sep.2017

YFIRLESTUR myndlist í bókaformi úr safneign Nýlistasafnsins

YFIRLESTUR
myndlist í bókaformi úr safneign Nýlistasafnsins

22.04. – 02.09.2017
Völvufell 13 – 21, Breiðholt
Opið eftir samkomulagi

Myndlist í bókaformi er mótsagnakennt fyrirbæri: Bækur sem líta þarf á sem myndlistaverk, myndlist sem lesa þarf sem bókmenntaverk. Bókverk krefjast óhefðbundins lesturs sem felur ekki aðeins í sér að lesa texta heldur einnig lestur á hinu sjónræna, áþreifanlega og hugmyndalega; greiningu á formi og tegund bókarinnar sjálfrar.

Á sýningunni YFIRLESTUR má sjá myndlist í bókaformi úr safneign Nýlistasafnsins en þar er að finna um 800 titla sem mynda jafnframt stærsta safn bókverka á Íslandi. Sýningin er í formi lesstofu þar sem gestum gefst kostur á að skoða úrval verka úr safneigninni, eftir íslenska og erlenda listamenn, frá sjöunda áratug síðustu aldar til dagsins í dag. Lesstofan er einnig rannsóknaraðstaða sýningarstjórans og verður einkabókasafn hans sem samanstendur af ýmsum heimildum um bókfræði og bókverk

aðgengilegt gestum á meðan sýningunni stendur. Þar verður einnig hægt að hlusta á útvarpsþátt Níels Hafsteins um viðfangsefnið sem nefnist „Viðkvæmur farangur“ og var á dagskrá Rásar 1 árið 1986.

„Bókasafnið“ er óreiðukennt en um leið einstakt safn myndlistarverka og samanstendur af „annarskonar“ bókum sem ratað hafa þangað með ýmsum leiðum á síðustu fjörutíu árum. Rétt eins og bókverkin krefst bókasafnið óhefbundins lesturs ef gera skal tilraun til að átta sig á innihaldi þess. Því munu fara fram þrír þematískir yfirlestrar á bókasafninu á meðan sýningunni stendur og titlum lesstofunnar verður skipt út jafnóðum.

Í fyrsta yfirlestri sýningarstjórans á bókasafni Nýlistasafnsins er þemað SJÓNDEILDARHRINGUR.

Markmið sýningarinnar er að draga fram úr bókahillum safnsins verk sem sjaldan eða aldrei hafa komið fyrir sjónir almennings og rannsaka bókina sem myndlistarmiðil í samtímanum. Form sýningarinnar sameinar rými safneignarinnar, bókasafnsins og sýningarsalarins, og vekur upp spurningar um framsetningu og miðlun á myndlist í bókaformi: bækur sem lesandi á að horfa á og list sem áhorfandi á að lesa.

Í tengslum við sýninguna fer fram dagskrá þar sem hlýða má á upplestra úr bókum lesstofunnar og taka þátt í umræðum mynd- og rithöfunda um bókaformið. Viðburðirnir fara fram fyrsta laugardag í hverjum mánuði og verða nánar auglýstir síðar. Sýningin er hluti af yfirstandandi rannsókn Heiðars Kára Rannverssonar á íslenskum bókverkum en stefnt er að því að gefa út bók um efnið síðar á árinu.

Rannsóknin hlaut styrk úr Myndlistarsjóði og Safnasjóði.

001_NYL_OlafurLarusson_emailmynd-01

Yfirstandandi 18.Mar.2017 – 21.Maí.2017

Rolling Line

Nýlistasafnið býður ykkur innilega velkomin á opnun Rolling Line, sýningu sem spannar rúman áratug af verkum og listheimildum eftir myndlistarmanninn Ólaf Lárusson (1951 – 2014).

Sýningin opnar laugardaginn 18. mars milli klukkan 14 – 18 og mun jafnframt vígja nýtt rými Nýlistasafnsins við höfnina, í Marshallhúsinu að Grandagarði 20, 101 Reykjavík.

Sýningin Rolling Line spannar rúman áratug af verkum og listheimildum eftir myndlistarmanninn Ólaf Lárusson (1951 – 2014). Ólafur var afkastamikill listamaður og tók virkan þátt í að móta áherslur innan myndlistarsenunnar á Íslandi sem stóð á ákveðnum tímamótum um miðjan 8. áratuginn.

Ólafur var í hópi þeirra myndlistarnema sem sögðu sig úr námi við Myndlista – og handíðaskóla Íslands árið 1974 sökum stöðnunar og hélt út til Hollands í kjölfarið þar sem hann stundaði frekara nám við hinn virta Atelier ’63 í Haarlem. Ólafur útskrifaðist úr skólanum árið 1976 og flutti heim til Íslands sama ár þar sem honum var boðið að kenna kvikmyndagerð við Deild í mótun, nýja deild innan MHÍ, sem seinna var nefnd Nýlistadeild.

Ólafur var einn af stofnaðilum Nýlistasafnsins og sinnti nefndarstörfum af miklum móð fyrstu ár safnsins sem þá hafði aðsetur á Vatnsstígnum. Hann var einn af síðustu listamönnunum sem tekinn var inn í SÚM hópinn og var stórtækur í framgangi gjörningalistar á Íslandi.

Þetta er í fyrsta sinn sem verk Ólafs eru sýnd saman í viðleitni til að draga upp heildræna mynd á afkastamestu árum listamannsins. Á sýningunni má einnig finna verk eftir Ólaf í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands og Safnasafninu ásamt ótal verkum í einkaeign, frá söfnurum, vinum og vandamönnum Ólafs.

Samhliða sýningunni verður gefin út vegleg bók í tilefni þeirrar stóru gjafar sem Nýlistasafninu barst frá fjölskyldu Ólafs og inniheldur mikið magn efnis frá vinnustofu listamannsins.

Á sýningunni eru settar fram upptökur og heimildir af Regnboga I, gjörningi sem Ólafur flutti í gallerí SÚM árið 1978, sem voru taldar týndar framan af. Einnig má sjá aðra útfærslu af verkinu sem að Ólafur sýndi fyrir framan alþjóð í Ríkissjónvarpinu árið 1980 en það var í fyrsta sinn sem gjörningur var framinn í sjónvarpi á Íslandi.

Listaverk Ólafs hrífa okkur með sér á vit ævintýra og sagna, upp á heiði og út í móa. Ólafur var blátt áfram í list sinni og leitaðist við að brjóta hina hefðbundnu miðlaumgjörð svo að verkin sjálf fengju vængi. Svo virðist sem málverkið hafi alla tíð verið honum eðlislægt, enda þótt hann hafi varið stórum hluta starfsferilsins í að spyrna gegn þeirri hvöt. Listaverkin sem endurspegla þá glímu eru því gjarnan hvað sérstæðust. Þau einkennast af tilraunamennsku og leikgleði og birtast okkur líkt og hending, fugl sem þýtur hjá og fær okkur til að staldra við.

Útgáfuhóf bókarinnar verður kynnt síðar en þá verður ekki síður tilefni til að fagna!

Við vonum að með sýningunni Rolling Line og væntanlegri útgáfu á verkum og heimildum, sem spanna þó aðeins áratug af framlagi Ólafs til listarinnar, hafi þessum góða listamanni og félaga verið gerð betri skil.

Sýningarstjórar Rolling Line eru Þorgerður Ólafsdóttir & Becky Forsythe. Sýningarhönnunin er gerð í samvinnu með Thomas Pausz.

Sýningin hlaut styrki frá Safnasjóði og Myndlistarsjóði.