Archive for nóvember, 2016

Sequences myndlistarhátíð fagnar 10 ára afmæli

nóv 15 2016 Published by under Uncategorized

Listahátíðin Sequences fagnar 10 ára afmæli hátíðarinnar laugardaginn 19. nóvember næstkomandi og býður alla velkomna til hátíðarhalda af því tilefni!

Hátíðarhöld hefjast kl. 12:45 í Listasafni Íslands þar sem Margot Norton sem nýlega var útnefnd sýningarstjóri næstu hátíðar mun flytja stutt ávarp, kynna áherslur næstu hátíðar og tilkynna um heiðurslistamann, en hefð er fyrir því að tilnefndur sé heiðurslistamaður Sequences fyrir hverja hátíð. Þá mun hún einnig segja frá verki David Horvitz Let Us Keep Our Own Noon sem verður til sýnis í Listasafni Íslands fram að vetrarsólstöðum 21. desember.

Verkið samanstendur af 47 bjöllum sem steyptar voru upp úr franskri bronskirkjuklukku frá 1742. Þegar sólin er hæst á lofti, sem verður kl. 13:13 þennan dag, býðst áhorfendum að taka sér bjöllu, hringja henni og taka hana með sér á göngu út úr safninu og hringja inn sitt eigið hádegi áður en þeir skila bjöllunum aftur á sinn stað. Boðið verður upp á glæsilega afmælistertu í safninu sem stjórnarmenn hátíðarinnar eiga veg og vanda að.

Þaðan verður haldið í Mengi þar sem fram fer opin skúlptúrkeppni og Rebecca Moran sýnir nýlegt verk og DJ Tilfinninganæmur (Ragnar Kjartansson) leikur létta stemmningsmúsík. Gif hreyfimyndir eftir hóp listamanna sem Hildigunnur Birgisdóttir hefur valið koma við sögu og dagskránni lýkur með opnun hljóðinnsetningarinnar Dagrenning að eilífu eftir Ragnar Helga Ólafsson, sem standa mun fram að næstu Sequences hátíð, haustið 2017. Upplýst verður um staðsetninguna á afmælisdaginn.

Um leið og þessi dagskrá fagnar afmæli Sequences er hún nokkurs konar brú yfir í næstu hátíð. Listamennirnir sem sýna verk sín eru t.d. allir sýnendur á næstu hátíð og er þátttaka sýningarstjórans til marks um metnað hennar og áhuga á að mynda sterk tengsl við íslenska listasenu og listamenn og kynna sér menningarlíf borgarinnar vel fyrir framkvæmd hátíðarinnar 2017. Því má segja að þessi dagskrá sé nokkurs konar forspil að stóru hátíðinni.

Sequences myndlistarhátíð hóf göngu sína árið 2006 og hefur verið haldin sjö sinnum. Hátíðin hefur að markmiði að vera vettvangur fyrir framsækna myndlist með sérstaka áherslu á tímatengda miðla á borð við gjörninga, hljóðlist, videólist og listrænar uppákomur. Frá upphafi var lagt upp með að Sequences væri í höndum myndlistarmanna og listamannarekinna stofnana og að þar ríkti andi frumkvæðis, tilrauna og áræðni. Sequences veitir almenningi tækifæri á að fá innsýn inn í það sem á sér stað í samtímamyndlist á Íslandi hverju sinni auk þess að leggja upp úr því að vera í tengslum við alþjóðlega listamenn og flytja spennandi verk til landsins.

Bakhjarlar Sequences eru Kling & Bang, Nýlistasafnið og KÍM.

Listasafn Íslands er á Fríkirkjuvegi 7 og Mengi er á Óðinsgötu 2.

Þess má geta að David Horvitz flytur fyrirlestur um verk sín í fyrirlestrarsal myndlistardeildar Listaháskóla Íslands í Laugarnesvegi 91 kl. 13 föstudaginn 18. nóvember. Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

No responses yet

Kíktu í heimsókn

Heimilisfang

 • Nýlistasafnið
 • Marshallhúsið
 • Grandagarður 20
 • 101 Reykjavík
 • Ísland

Opnunartímar

 • þri til sun 12 – 18
 • fim 12 – 21
 • lokað á mánudögum
 • Almenningssamgöngur

  • Strætó: 14
  • Stöð: Grandi

Hafðu samband

 • S: +354 551 4350
 • N: nylo(at)nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map