Archive for nóvember, 2014

Fjáröflun og uppboð Nýlistasafnsins verða haldin í Safnahúsinu frá 19. – 23. nóvember

nóv 10 2014 Published by under Uncategorized

Nýlistasafnið eða Nýló er eitt af elstu listamannareknu söfnum í Evrópu og skipar einstakan sess sem menningarstofnun á Íslandi. Safnið er ekki rekið í hagnaðarskyni heldur í þágu framþróunar og varðveislu myndlistar hér á landi.

Nýló er sjálfseignarstofnun og í dag eru fulltrúar þess yfir 350 starfandi listamenn og einstaklingar sem vinna á mismunandi sviðum menningargeirans.

Nýlistasafnið hefur lengi verið miðstöð nýrra strauma og tilrauna í myndlist og hafa margar sýningar í Nýló markað tímamót í íslenskri listasögu.

Myndir, verk á uppboðinu
Til vinstri: Time /Pavillion II verk eftir Rúrí
Til hægri: Nordic Soap eftir Arnar Ásgeirsson

Nýló hefur oft þurft að flytja gegnum tíðina vegna óstöðugs leigumarkaðs og lítilla fjárráða. Fulltrúar Nýló ásamt fleiri listamönnum hafa nú gefið safninu listaverk til þess að fjármagna húsnæðisflutninga safnsins og koma fyrir í varanlegri aðstöðu.

Ýtið hér til að fara á heimasíðu uppboðsins eða á linkinn til hægri.

Fjáröflunin og uppboðið opnar með sýningu á verkunum í risi Safnahússins, Hverfisgötu 15, miðvikudaginn 19. nóvember kl. 17:00

Nýló opnaði safnaheimkynni sín á dögunum í Völvufelli 13-21 þar sem safneigninni og heimilda-söfnunum hefur verið komið fyrir. Einnig hefur rýmið á efri hæð hússins, gamla bakaríið verið tímabundið leigt út, þar sem stjórn mun setja upp sýningar næsta árið á meðan leitað er að varanlegra sýningarými.

Nýlistasafnið var stofnað árið 1978 af framsæknu myndlistarfólki en kjarni þeirra hafði áður starfað innan SÚM hópsins. Nýló er listamannarekið sýningarrými og safn, vettvangur framsækinnar myndlistar, viðburða, umræðna og gjörninga.

Eitt af markmiðum Nýló er að halda utan um sögu myndlistar hér á landi og varðveita listaverk og heimildir sem tengjast frumkvöðlastarfi innan íslenskrar myndlistar.

Árið 2010 hlaut Nýlistasafnið Íslensku Safnaverðlaunin sem veitt eru annað hvert ár til safns sem þykir skara fram úr með starfsemi sinni.

No responses yet

Alfredo Cramerotti verður sýningarstjóri Sequences VII

nóv 07 2014 Published by under Uncategorized

Alfredo Cramerotti verður sýningarstjóri Sequences VII 2015

Alfredo Cramerotti hefur verið valinn til að sýningarstýra sjöundu Sequences myndlistarhátíðinni sem fram fer í Reykjavík dagana 10.-19. apríl 2015.

Sequences er metnaðarfullur, alþjóðlegur myndlistartvíæringur og er eina hátíðin á Íslandi sem sérhæfir sig í myndlist. Hátíðin hefur að markmiði að skapa vettvang fyrir framsækna myndlist með sérstaka áherslu á tímatengda miðla á borð við gerninga, hljóðlist og vídeólist og að þjóna fjölbreyttum hópi gesta og þátttakenda; listamanna, fagfólks og almennings.

Eftir mikla velgengni Sequences VI undir stjórn Markúsar Þórs Andréssonar var ákveðið að nýta áhrifamátt og kraft hátíðarinnar og leita út fyrir landsteinana að næsta sýningarstjóra.

Alfredo Cramerotti er reyndur sýningarstjóri og rithöfundur og hefur fengist við fjölbreytt verkefni á sviði myndlistar. Árið 2010 var hann einn sýningarstjóra evrópska samtímalista-tvíæringsins Manifesta 8 sem fram fór á Spáni, 2013 stýrði hann þjóðarskála Maldív-eyja sem og skála Wales á Feneyjatvíæringnum í myndlist og hlaut mikið lof fyrir og nú gegnir hann stöðu forstöðumanns MOSTYN, stærstu samtímaliststofnunar Wales. Edda Kristín Sigurjónsdóttir verður aðstoðarsýningarstjóri hátíðarinnar og Edda Halldórsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

Um 25 íslenskir og erlendir myndlistarmenn munu taka þátt í hátíðinni sem fer fram á sýningarstöðum víðs vegar um Reykjavíkurborg og í almenningsrýmum. Líkt og á síðustu Sequences-hátíð verður sérstök Utandagskrá kynnt samhliða aðaldagskránni þar sem listamönnum og sýningarstöðum gefst kostur á að standa fyrir sýningum og viðburðum en sú tilraun gafst vel á síðustu hátíð þar sem sýnd voru meðal annars verk Matthews Barney. Tekið verður á móti skráningum til Utandagskrár og verður hún auglýst sérstaklega síðar.

Sequences var haldin í fyrsta skiptið árið 2006 og hefur vaxið og dafnað síðan. Hátíðin er mikilvægur vettvangur fyrir myndlistarmenn og varpar ljósi á virka myndlistarsenuna hér á landi og á Reykjavík sem áhugaverðan áfangastað fyrir áhrifafólk í alþjóðlega listheiminum.

Frá upphafi var lagt upp með að Sequences væri í höndum myndlistarmanna og listamannarekinna stofnana og að þar ríkti andi frumkvæðis, tilrauna og áræðni. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Nýlistasafnið og Kling & Bang gallerí eru aðstandendur hátíðarinnar.

Nánari upplýsingar veita :
Edda Halldórsdóttir 848 8351
Edda Kristín Sigurjónsdóttir 897 4062
seqeunces.is

No responses yet

Kíktu í heimsókn

Heimilisfang

 • Nýlistasafnið
 • Marshallhúsið
 • Grandagarður 20
 • 101 Reykjavík
 • Ísland

Opnunartímar

 • þri til sun 12 – 18
 • fim 12 – 21
 • lokað á mánudögum
 • Almenningssamgöngur

  • Strætó: 14
  • Stöð: Grandi

Hafðu samband

 • S: +354 551 4350
 • N: nylo(at)nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map