Archive for maí, 2014

Opnun S7 – Suðurgata >> Árbær (ekki á leið)

maí 27 2014 Published by under Uncategorized

Verið velkomin á opnun sýningarinnar í Árbæjarsafni, föstudaginn 30. maí kl. 17.

Erla Silfá Þorgrímsdóttir, Hrafnhildur Helgadóttir, Sæmundur Þór Helgason & Styrmir Örn Guðmundsson. Anna Hrund Másdóttir, Arna Óttarsdóttir, Arnar Ásgeirsson & Leifur Ýmir Eyjólfsson.

Sýningin og útgáfan, sem einnig verður fagnað sama dag, sækir efnivið og innblástur í starfsemi sem átti sér stað í galleríi við Suðurgötu 7, í miðbæ Reykjavíkur á árunum 1977 til 1982 í húsi sem nú stendur á Árbæjarsafni. Starfseminni var haldið úti af ungu listafólki sem stóð að afkastamikilli sýningarstarfsemi sem og útgáfu tímaritsins Svart á hvítu.

Nú hefur fjórum upprennandi listamönnum verið boðið að vinna ný verk fyrir sýninguna. Listamennirnir Erla Silfá Þorgrímsdóttir, Hrafnhildur Helgadóttir, Sæmundur Þór Helgason og Styrmir Örn Guðmundsson vinna verk sín inn í marglaga sögu hússins, arkitektúr þess og safnafræðilegt samhengi. Einnig hafa verið valin verk sem kallast á við þá sögulegu sviðsetningu sem sett hefur verið upp í húsinu; þau eru eftir listamennina Önnu Hrund Másdóttur, Örnu Óttarsdóttur, Arnar Ásgeirsson og Leif Ými Eyjólfsson.

Verkefnið leiðir saman tvær ólíkar stofnanir, Nýlistasafnið og Minjasafn Reykjavíkur. Í Nýlistasafninu er heimildasafn um listamannarekin rými. Þar á meðal er að finna heimildir tengdar Gallerí Suðurgötu 7, en þetta er í fyrsta sinn sem starfsemi þess er gerð skil með þessum hætti. Minjasafn Reykjavíkur varðveitir húsið sjálft, Suðurgötu 7, sem var flutt í heilu lagi á Árbæjarsafn árið 1983 og þar má kynna sér sögu þess framundir aldamótin 1900.

Sýningin stendur yfir frá 31. maí – 31. ágúst.

Verkefnið er hluti af Listahátíð í Reykjavík 2014.

Sýningarstjórnun; Unnar Örn Jónsson & Heiðar Kári Rannversson

Verkefnastjórnun; Gunnhildur Hauksdóttir & Bergsveinn Þórsson

No responses yet

æ ofaní æ á Listahátíð í Reykjavík

maí 22 2014 Published by under Uncategorized

Fyrra framlag Nýlistasafnsins á Listahátíð í Reykjavík 2014 er sýningin og kvikmyndin æ ofaní æ. Á Listahátíð verður boðið upp á dagskrá að Skúlagötu 28, 101 Reykjavík og nýtt verk bætist við sýninguna.

Fimmtudagurinn 22. maí -5. júní Í tilefni af opnun Listahátíðar bætist nýtt verk eftir Hrein Friðfinnsson við sýninguna, videóverkið Lithlýðni, eða Correspondence in Red and Green. Þar fara Hreinn og Magnús Logi Kristinsson með aðalhlutverk í stuttri frásögn um samskipti manna á milli.

Laugardagurinn 31. maí kl. 17:00 Gjörningur Magnúsar Loga Kristinssonar ásamt dagskrá með nýjum vídeóverkum eftir Hrein Friðfinnsson. Magnús Logi er búsettur í Finnlandi og kemur sérstaklega til landsins af þessu tilefni.

Fimmtudagurinn 5. júní 20:00 Sýningarlok og sjónþing um kvikmynda- og sýningarverkefnið æ ofaní æ. Ingibjörg Magnadóttir, Oddný Eir Ævarsdóttir og Huldar Breiðfjörð munu þar reifa hugleiðingar sínar um sýninguna, kvikmyndina og samtalið þar á milli

Kvikmyndin æ ofaní æ endurspeglar líf og list Hreins Friðfinnssonar, eins ástsælasta listamanns sinnar kynslóðar. Leikstjórarnir, Ragnheiður Gestsdóttir og Markús Þór Andrésson, fara óhefðbundna leið við gerð þessarar fimmtíu mínútna löngu myndar þar sem mörk veruleika og skáldskapar eru útmáð. Lykilverk af ferli listamannsins eru notuð sem burðarás í spennuþrunginni frásögn þar sem sannleiksleit vísindanna og sköpunarþrá listarinnar takast á. Kvikmyndin er til sýnis á klukkutíma fresti í sérrými í Nýlistasafninu, en í fremra rými er sýning á verkum Hreins.

Sýningin endurspeglar margslungnar tilraunir Hreins til að höndla hverfulleikann og fanga óendanleikann í tíma og rúmi. Á sýninguna eru valin bæði eldri verk sem ekki hafa komið fyrir sjónir almennings árum saman sem og þekkt verk af ferli listamannsins. Að auki verða til sýnis glæný verk úr smiðju hans sem sniðin eru að hinu sérstaka flísagólfi í Nýlistasafninu við Skúlagötu. Safnið leikur einnig stórt hlutverk í kvikmyndinni, enda var hluti hennar tekinn í geymslum þess.

Hin margrómaða finnska leikkona, Kati Outinen, er í hlutverki Aiku sem starfar á Rannsóknarstofu tímans. Hún hefur það verkefni að fylgjast með framvindu tilraunar þar sem tvíburabræður voru í æsku fluttir á ólíkar slóðir til þess að mæla framvindu tímans allt eftir nálægð við þyngdarafl Jarðar.

Magnús Logi Kristinsson túlkar þann bróður sem ólst upp hátt uppi í fjöllum Íslands en Hreinn Friðfinnsson sjálfur túlkar þann sem ólst upp niðri við sjávarmál í Amsterdam. Tilraunin fór langt fram úr væntingum, því að áratugir virðast skilja bræðurna að. Babb kemur í bátinn þegar Aika ákveður að stefna þeim saman í fyrsta sinn, enda er tíminn mikið ólíkindatól.

One response so far

Nýlistasafnið flytur safneign sína upp í efra Breiðholt

maí 21 2014 Published by under Uncategorized

Á nýlegum fundi fundi borgarráðs var tillaga að rammasamningi milli Nýló og borgar samþykkt. Samningurinn felur í sér tæplega 400m2 húsnæði í Völvufelli 13-21, 111 Reykjavík, fyrir starfsemi safneignarhluta Nýló.

Menningar og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar styrkir Nýló fyrir hluta af leigukostnaði og verða drög lögð að samstarfssamningi þessara aðila til fimm ára, með möguleika á framlengingu í önnur 5 ár á sömu leigukjörum.

Safnið mun geyma safneign sína, sem telur um 2.000 verk, ásamt heimildarsöfnunum í Völvufellinu Þar mun stjórn setja upp 2 sýningar með verkum úr safneign á ári, á haust og vormisseri. Ennfremur mun Nýló bjóða upp á leiðsagnir, fræðslu og rannsóknaraðstöðu er varða safneign og heimildarsöfn Nýló.

Þetta er visst skref fyrir Nýlistasafnið, að skipta starfseminni upp í sýningarými annars vegar og lifandi safneign hinsvegar. En jafnframt er safneignin fyrir löngu orðin að sjálfstæðu fyrirbæri innan Nýló og mun vafalaust hjálpa til og taka þátt í þeirri góðu uppbyggingu sem er nú í fullum gangi í Breiðholtinu.

Til að byrja með mun safnið hafa starfsmann í Völvufelli í hluta úr viku og eftir samkomulagi. Stjórn býst við að flytja safneign sína í lok maí mánaðar.

Leitin að húsnæði undir sýningarstarfsemina heldur áfram. Ekkert er í hendi en viðræður eru í gangi varðandi nokkra möguleika. Stjórn heldur áfram að vinna að fjáröflun fyrir húsnæði ásamt verkefnastjóra þessa framtaks, Kristínu Maríu Sigþórsdóttur. Fjáröflunin fer fram yfir sumarið og endar á lifandi uppboði í september með tilheyrandi sýningu á verkum listamanna sem styðja málefnið.

No responses yet

Kíktu í heimsókn

Heimilisfang

 • Nýlistasafnið
 • Marshallhúsið
 • Grandagarður 20
 • 101 Reykjavík
 • Ísland

Opnunartímar

 • þri til sun 12 – 18
 • fim 12 – 21
 • lokað á mánudögum
 • Almenningssamgöngur

  • Strætó: 14
  • Stöð: Grandi

Hafðu samband

 • S: +354 551 4350
 • N: nylo(at)nylo.is

Panta leiðsögn um yfirstandandi sýningu

Upplýsingar

map